143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að gefa hv. þingmanni færi á að koma hér aftur því að hann komst ekki alveg yfir allt sem ég var með hugann við í fyrirspurn minni. Síðasta spurningin mín laut að því hvernig eigi að fara með hópa eins og fólk sem hefur af einhverjum ástæðum selt eignir sínar, flutt úr landi og er með tekjur annars staðar og ekki með persónuafslátt hér en á engu að síður rétt samkvæmt forskrift frumvarpsins sjálfs á leiðréttingu. Á að svipta það fólk þeirri leiðréttingu? Hvernig stenst það jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar? Þetta getur líka verið fólk sem var með launatekjur á þeim tíma sem um ræðir, 2008 og 2009, er komið á eftirlaun í dag og getur kannski ekki nýtt sér leiðréttinguna að fullu af þeim sökum en á hana samkvæmt forskrift frumvarpsins. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að verja það misrétti og ójafnræði sem felst í því og getur það staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar?