143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:28]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni vangaveltur í kringum umræðuna hér. Það er rétt, þetta er einmitt orðið að 72 milljörðum sem eiga að fara í útdeilingu til ólíkra hópa, ekki 300, ekki 800, ekki 200 og ekki neitt af þessum fjárhæðum sem voru nefndar í umræðunni áður en skiptir ekkert endilega svo miklu máli hvaðan komu eins og ég fór yfir í ræðu minni. Það er öllum skýrt hvaða væntingar voru byggðar upp og það er kannski það sem endurspeglast í 27% ánægju kjósenda nú með þessar aðgerðir, væntingaboginn var kannski spenntur eitthvað eilítið hærra.

Það er alveg rétt að miðað við fyrirliggjandi greiningu með frumvarpinu hækkar fjárhæð leiðréttingarinnar eða afskriftanna eftir því sem fólk hefur hærri tekjur. Þá kallar hv. þingmaður fram í: Jú, og meiri skuldir.

Já, já, meiri skuldir vissulega, meiri eignir þá líka, meira af tekjum, meira af eignum, meira af skuldum og allt það, með öðrum orðum hátekjufólk, efri millistétt og yfirstétt ef við getum notað þau orð. Og fjárhæðirnar úr ríkissjóði beinast til þeirra og það er það sem mér svíður.

Hv. þm. Oddnýju Harðardóttur hefur ásamt fleiri hv. þingmönnum orðið tíðrætt um 8 milljónirnar sem séu einhvers konar skil þarna. Ég vil bara horfa á efsta tekjubilið sem er 12 milljónir plús í árstekjur. Þar fara rúmlega 15% og ég horfi nú bara á stöpulinn og þori ekki að fullyrða meir. Stöpullinn fer yfir 15% línuna fyrir þennan hóp sem hefur 12 milljónir eða meira í árstekjur. Ekkert þak er skilgreint á það.

Hvað þarf að breytast til að fólk verði ánægðara með þetta? Ég held, og það fullyrði ég í ræðu minni, að það þarf að miða þessar aðgerðir betur, klippa agnúa af frumvarpinu svo kúrfan fari ekki upp á við eftir því sem fólk hefur meiri tekjur heldur niður á við og jafnvel klippist af við þröskuld sem er töluvert lægri en 12 og jafnvel einhvers staðar nærri 8, mundi ég segja. Það þarf að breytast. (Forseti hringir.) Auk þess þarf það að breytast að framsóknarþingmenn tali (Forseti hringir.) á annan hátt um þetta frumvarp en sem einhvers konar upprisu millistéttar.