143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:33]
Horfa

Edward H. Huijbens (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir athugasemdirnar og spurninguna. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga á því að auðvitað þarf að kafa miklu dýpra ofan í greiningu þess hvernig þetta leikur landshlutana.

Það er alveg augljós munur á íbúðaverði og þróun fasteignaverðs í höfuðborginni og á landsbyggðinni, reyndar landsbyggðunum vegna þess að það er ekki alveg sammerkt hvernig þetta er fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Eyjafjarðarsvæðið sker sig til dæmis úr og jafnvel Fljótsdalshérað þannig að við tölum yfirleitt um landsbyggðirnar í fleirtölu nú orðið.

Kjarninn í þessu öllu saman er að í þessu frumvarpi og í raun og veru í hugmynd framsóknarmanna varðandi þetta frumvarp er hugmyndin um misskiptingu einhvern veginn ekki til. Það er ekkert til sem heitir misskipting gæða, auðs eða eigna. Þetta er bara einhvern veginn ekki til. Það er alveg stórmerkilegt.

Ef hv. framsóknarþingmenn gætu talað af meiri næmni og skilningi gagnvart þeim raunveruleika að til er nokkuð í þessu landi sem heitir misskipting næðu þeir kannski meira fylgi með þessu frumvarpi. Það er einn af þessum þáttum sem þarf að breyta.

Síðan vil ég taka annað dæmi um landsbyggðirnar og höfuðborgina. Það eru mýmörg dæmi um raunverulegan forsendubrest í lífsviðurværi og afkomu fólks. Nýjast þeirra er auðvitað, eins og hefur verið dregið fram í umræðunni, lokun fiskvinnslu Vísis á Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri. Hér er komið enn eitt dæmi þess hvernig framsal aflaheimilda hefur leikið fjölskyldur í landinu, fólk sem leggur ævistarf sitt og tekjur í húsnæðið og líf á stað sem það hefur valið til búsetu. Það missir allt vegna ákvarðana sem eiga ekkert lýðræðislegt aðhald. Hús þessa fólks hafa misst verðgildi sitt og gætu orðið með öllu verðlaus ef byggðin leggst af, t.d. á Þingeyri, eins og raunveruleg hætta er á.

Það er sérstakt að hugsa til þess að aldrei hefur komið til tals að hér sé forsendubrestur sem þurfi að leiðrétta.