143. löggjafarþing — 92. fundur,  8. apr. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[23:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega ekki hægt að láta umræðuna ganga þannig að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra flytji lokaræðu við umræðuna án þess að það fáist hér fram af hálfu þingflokksformanns Framsóknarflokksins einhverjar skýringar á því af hverju hæstv. forsætisráðherra er hlaupinn í felur.

Hvar í ósköpunum er hæstv. forsætisráðherra? Hvers vegna hefur það ekki verið skýrt að hann er ekki hér við umræðuna í því máli sem hann er upphafsmaður að og hefur gefið út miklar heitstrengingar um og loforð gagnvart kjósendum öllum? Hvers vegna hefur hæstv. forsætisráðherra ekki haft kjark til þess að flytja eina ræðu um þetta þingmál, ekki til þess að veita eitt einasta andsvar? Á virkilega að bjóða, virðulegur forseti, þingheimi upp á að ljúka 1. umr. um þetta mál, höfuðkosningamál Framsóknarflokksins og 80 milljarða útgjöld úr ríkissjóði, án þess að forsætisráðherra þori einu sinni að láta sjá sig við umræðuna? Síðan ég kom hingað hefur hann ekki einu sinni treyst sér til þess að sitja hér og hlusta, jafnvel þótt að hann þyrði ekki að blanda sér í umræðuna vitandi um þær erfiðu spurningar sem hann þyrfti að fást við.