143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:12]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum sem eru frá árinu 2010. Þessar breytingar láta kannski ekkert óskaplega mikið yfir sér; þær eru ekki óskaplega margar greinar, enda skipulagslagabálkurinn allítarlegur. Ég get upplýst það að ég kom nokkuð nálægt þessari vinnu við undirbúning skipulagslaganna, þ.e. núgildandi laga. Snemma á þessari öld setti þáverandi umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, af stað vinnu við að endurskoða skipulagslögin frá árinu 1997. Ég var þá skipaður fulltrúi Reykjavíkurborgar í þeim starfshópi sem vann þær breytingartillögur eða samdi í raun frumvarp til nýrra laga, en það áttu eftir að verða held ég þrír umhverfisráðherrar sem fóru höndum um það frumvarp áður en það síðan varð að lögum á Alþingi, eða jafnvel fleiri, kannski fjórir, fimm umhverfisráðherrar. Um tíma, í byrjun þessarar aldar, var nokkuð ört skipt um umhverfisráðherra, ef ég man rétt. En frumvarpið varð alla vega að lögum árið 2010. Ég tók þátt í að vinna það þótt það hafi að vísu bæði í meðförum ráðuneytis og síðan í meðförum þingsins tekið breytingum frá því sem tillögur nefndarinnar gerðu ráð fyrir. Það má segja að að uppistöðu til hafi verið byggt á þeirri vinnu sem fram fór á árunum 2002/2003–2004/2005 eða svo.

Það má segja að nokkur atriði í þessu frumvarp kalli á umræðu eða a.m.k. vangaveltur. Ég ætla á þeim stutta tíma sem er til umráða að beina sjónum að fáum atriðum. Ég ætla fyrst að gera hér að umtalsefni breytingu á 38. gr. laganna sem er að finna í 12. gr. frumvarpsins og lýtur að því álitaefni þegar aðrir aðilar en sveitarstjórnir sjá um deiliskipulagsgerð. Hér er verið að vísa til lands sem er í einkaeigu og viðkomandi aðilar hafa uppi óskir um tiltekna landnotkun á því landi og geta fengið samkvæmt gildandi skipulagslögum. Um það segir í 2. mgr. 38. gr. gildandi laga, með leyfi forseta:

„Landeigandi eða framkvæmdaraðili getur óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað.“

Hann getur óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi á sinn kostnað. Núna er hins vegar gert ráð fyrir því að þessi málsgrein hljóði þannig, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn getur einnig veitt landeiganda eða framkvæmdaraðila samkvæmt hans beiðni heimild til að vinna sjálfur að gerð deiliskipulags. Skal hann þá taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu“ o.s.frv. sem er svipað og í gildandi lögum.

Þetta hljómar ekki svo mikil breyting í sjálfu sér, en orðalagsbreyting er þetta samt. Það vekur engu að síður upp spurningar um hvað felist í þessari orðalagsbreytingu. Til hvers er verið að gera hana nema einhver merking sé í því?

Ég les út úr þessu að það sé verið að gefa einkaaðilanum meiri eða aukinn rétt og möguleika á því að láta vinna deiliskipulag á sínu landi en gildandi lög gera ráð fyrir. Það er ekki óyggjandi. Það er ekki hægt að sjá þetta með óyggjandi hætti út úr frumvarpinu, en mér finnst líklegt að orðalagsbreytingin sé til komin vegna einhverra slíkra ástæðna.

Það segir í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Tillaga að framangreindri breytingu hefur það að markmiði að einfalda ferli við gerð deiliskipulags þegar landeigandi eða framkvæmdaraðili eiga frumkvæði að gerð tillögu að deiliskipulagi. Í stað þess að landeigandi eða framkvæmdaraðili afli heimildar sveitarstjórnar til að vinna skipulagstillögu og samþykkis sveitarstjórnar á lýsingu skipulagstillögunnar á tveimur fundum sveitarstjórnar er lagt til að framangreint fari fram á sama tíma þannig að sveitarstjórn geti tekið afstöðu til hvoru tveggja á sama fundi.“

Ég skil þetta þannig að það sé verið að gera þetta einfaldara.

Ég tel að það sé mikið álitamál almennt hvort aðrir en sveitarfélögin eigi að vinna deiliskipulag innan lögsagnarumdæmis síns. Ég tel að það sé dálítið prinsippmál. Þessi umræða var tekin þegar skipulagslögunum frá 1997 var breytt, þ.e. í vinnunni sem fór fram í byrjun þessarar aldar og ég gat um áðan. Þá var rætt um það hvort þetta væri eðlilegt og ef ég man rétt var heldur dregið úr og réttur sveitarfélaganna frekar aukinn að þessu leyti til, en það var ekki girt fyrir að einkaaðilar gætu unnið skipulag á sinn kostnað á sínu landi. Mér er til efs að þannig sé málum háttað í löndunum í kringum okkur þó að ég viti það ekki með vissu, en það væri fróðlegt að fá upplýsingar um hvort það sé þannig. Ég tel að skipulag sveitarfélagsins sé eitthvað sem sveitarstjórnin eigi að bera ábyrgð á og hafa með höndum. Hún starfar í umboði kjósenda og á að standa skil á því sem hún gerir í því efni gagnvart kjósendum sínum og íbúum. Mér finnst að þetta sé nokkuð sem mætti alveg taka til frekari umfjöllunar hér.

Annað atriði sem hefur fengið talsverða umræðu, herra forseti, varðar bótaréttinn vegna breytinga á skipulagsáætlunum. Í mínum huga er mikilvægt að það verði farið rækilega í saumana á því máli á vettvangi nefndarinnar og fengnir sérfróðir aðilar, m.a. sérfræðingar sem hafa unnið þetta frumvarp, til að fara yfir það með nefndinni.

Eins og hefur komið fram í umræðum og andsvörum eru menn að velta fyrir sér hvort við séum að ganga býsna langt að því er varðar eignarréttinn með því að skilgreina eignarrétt á einhverju sem er algerlega óáþreifanlegt, einhverjum teikningum á skipulagsáætlunum um hugsanlegar byggingaviðbætur sem er síðan ekkert gert í árum saman, eins og mörg dæmi eru um, að það skapi síðan einhvern bótarétt ef sveitarfélagið kýs að gera breytingar á skipulaginu.

Það er að vísu sagt í 20. gr. frumvarpsins sem er umorðun á 51. gr. laganna, með leyfi forseta:

„Leiði skipulag eða breyting á skipulagi til þess að verðmæti fasteignar skerðist verulega, umfram það sem við á um sambærilegar eignir í næsta nágrenni, á sá er getur sýnt fram á tjón af þeim sökum rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi.“

Það gæti hugsanlega þýtt að ef verið væri að gera almenna breytingu á deiliskipulagi þar sem verið væri að draga úr byggingarmagni, þannig að það ætti ekki endilega við einhvern einn sérstaklega heldur væri það á öllum deiliskipulagsreitnum þar sem margir væru undir, þá væri kannski ekki hægt að sýna fram á tjón umfram það sem ætti við um sambærilegar eignir. Engu að síður vitum við að í deiliskipulagsáætlun er stundum verið að gera breytingar á einstökum lóðum. Oft er það þannig, vil ég meina af minni reynslu af skipulagsmálum í Reykjavík, að verið er að gera breytingar á hluta deiliskipulagsreits til að koma til móts við lóðarhafa sem vill gjarnan gera einhverjar breytingar hjá sér, gjarnan bæta við, byggja við húsið hjá sér, byggja ofan á það eða eitthvað þess háttar, og það hefur í för með sér hærra nýtingarhlutfall á viðkomandi lóð. Síðan ef menn fá þessa breytingu í gegn en nýta sér síðan ekki réttarheimildina þá eru þess mörg dæmi að menn komi síðan og segi: Hérna á ég rétt — byggingarrétt, nýtingarrétt — ef það á að taka hann af mér verð ég að fá hann bættan. Um þetta eru mýmörg dæmi.

Ég tel að fara þurfi mjög vandlega í saumana á þessu öllu. Það þyrfti m.a. að huga að því hvort deiliskipulagsáætlanir ættu almennt að vera tímasettar. Aðalskipulagsáætlanir eru það. Samkvæmt skipulagslögunum eru þær að lágmarki 12 ár, ef ég man rétt, en eru gjarnan til 20 ára. Deiliskipulagsáætlanir eru hins vegar ekki tímasettar. Þess vegna kemur upp sú staða að menn telja sig eiga einhvern rétt í skipulagi sem getur þess vegna verið 30 ára gamalt og úr sér gengið og hefur alls ekki verið byggt í samræmi við. Þegar sveitarfélagið ætlar síðan að gera gangskör í því að breyta skipulaginu, kannski til samræmis við nýrri hugmyndir og þróun í skipulagsmálum, skipulagshugmyndum, þá vakna einhverjir upp og veifa loftköstulum sínum, sem hafa hugsanlega aldrei verið neitt annað, og ætla að fá bætur.

Þetta gæti hugsanlega breyst ef deiliskipulagsáætlanirnar væru tímasettar, þær giltu aldrei til lengri tíma en gildandi aðalskipulagið. Það gæti verið mislangt hvað slíkar deiliskipulagsáætlanir giltu lengi og færi þá eftir því hvenær á skipulagstíma skipulagsins verið væri að setja þær, en þær gætu líka verið til skemmri tíma með sérstakri ákvörðun.

Þetta hefur áður komið til umfjöllunar, eins og ég sagði, og ég tel að eigi að koma til umfjöllunar í tengslum við þessa umræðu því að þetta tengist umræðunni um bótaréttinn. Það er mikið gert úr því í þessu frumvarpi að þetta snúist um bótaréttinn.

Ég tel reyndar að það sé til mikilla bóta að fá skilgreiningu á ákvörðun um bætur og hvernig eigi að mæta bótakröfum og bótaskyldu annarra aðila en sveitarfélaga o.s.frv., eins og gert er í 21. gr. frumvarpsins. Ég tel að það sé mikill kostur að fá inn í skipulagslögin slíkar skilgreiningar. Það er hins vegar spurning hvort þær ganga nógu langt. Ég tel það vera viðfangsefni hv. umhverfis- og samgöngunefndar að skoða hvort það þurfi hugsanlega að ganga lengra en frumvarpið gerir ráð fyrir og útbúa sveitarfélögin með sterkari stjórntæki í skipulagsmálum en virða að sjálfsögðu aðkomu almennings og möguleika almennings og frjálsra félagasamtaka til að hafa áhrif á skipulagsákvarðanir, það er mikilvægt. Í þessu tilfelli, að því er varðar þetta frumvarp, tel ég skipta miklu máli að farið verði yfir þetta í nefndinni.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir fór ágætlega yfir allmörg dæmi sem eru líka til þar sem verktakar hafa keypt eignir í frekar lélegu ásigkomulagi og látið þær drabbast niður áfram til þess að koma með rök fyrir því að nú megi bara rýma þær og byggja mikið upp á reitnum og sveitarfélögin freistast kannski til þess að samþykkja það til að bæta ásýnd og umhverfi viðkomandi bygginga. Ég held að sveitarfélögin þurfi að fá miklu betri tæki til þess að tryggja uppbyggingu eigna sem eru í niðurníðslu svo að (Forseti hringir.) eigendur beri meiri skyldur í því efni og hafi ákveðinn tímafrest í því sambandi.

Þetta eru, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) atriði sem ég vildi leggja inn í þessa umræðu og vonast til þess að (Forseti hringir.) verði tekin til umfjöllunar á vettvangi nefndarinnar.