143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

skipulagslög.

512. mál
[17:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spurði mig líka um, í tengslum við þessa 12. gr., hvort ég teldi að þarna væri einhver laumufarþegi á ferðinni. Ég ætla ekkert að fullyrða um það og ég er ekkert viss um að það sé endilega með ráðnum hug gert. En ég vek samt athygli á því og er sammála hv. þingmanni að það er orðalagsbreyting. Í greinargerðinni segir að hún sé til einföldunar, til að einfalda ferlið. Þá les ég út úr því: Einfalda ferlið, fyrir hvern? Fyrir lóðarhafann, fyrir framkvæmdaraðilann, þannig að það væri ekki eins flókið fyrir hann að vinna sína deiliskipulagsáætlun. Ef það er þannig er ég ekki sammála því markmiði. Ég tel ekki að menn eigi að fara í þá áttina, menn eigi frekar að fara í hina áttina að styrkja stöðu sveitarfélaganna, farandi með skipulagsvaldið almennt séð, og þá líka skyldur þeirra til að vinna deiliskipulag.

Það sem getur komið upp í umræðunni er það að það kemur lóðarhafi til sveitarfélagsins og segir: Ég er hérna með þessa lóð og það er brýnt að vinna deiliskipulag á henni. Sveitarfélagið segir: Já, við tökum hana og hún fer hérna í röðina hjá okkur, hún er númer 35 í röðinni. Þannig að það verður ekki fyrr en á þriðja ári héðan í frá sem sveitarfélagið mun hafa ráðrúm til að fara í þessa deiliskipulagsvinnu. Þetta eru alveg raunverulegir möguleikar. Þá segir viðkomandi kannski: Heyrðu, það er auðvitað ekki ásættanlegt, má ég ekki bara vinna þetta deiliskipulag á minn kostnað?

Þetta eru hin raunverulegu dæmi sem koma upp og menn verða bara að horfast í augu við og takast á við. Þess vegna held ég að þessi möguleiki sé inni í skipulagslögunum að einstaklingar eða lögaðilar geti séð um deiliskipulagsvinnu á sinn kostnað. En auðvitað er mjög mikilvægt að frumkvæðið og öll forskriftin að því hvað (Forseti hringir.) deiliskipulagið á að bera í sér sé gerð á vegum sveitarfélagsins en sé ekki afhent (Forseti hringir.) sveitarfélaginu af þeim sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta.