143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[22:20]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Til viðbótar við það sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir nefndi legg ég áherslu á að þingsköpin eru að mínu viti tiltölulega afdráttarlaus um þetta efni. Umhverfismál almennt fara til umhverfis- og samgöngunefndar og þangað fara einnig rannsóknir, ráðgjöf, verndun og sjálfbærni á sviði auðlindamála almennt. Þeirri tillögu sem hér er um að ræða var einmitt vísað til umhverfis- og samgöngunefndar síðast á þessum grundvelli.

Það sem hefur líka gerst frá því að rammaáætlun kom fyrst fram er að forræði hennar í Stjórnarráðinu hefur verið flutt úr iðnaðarráðuneytinu eða atvinnuvegaráðuneytinu yfir í umhverfisráðuneytið. Umhverfis- og auðlindaráðherra flytur þetta mál og af því að hann er líka með annan hattinn í atvinnuvegaráðuneytinu er náttúrlega nær að spyrja hvort hann sé jafnvel á þeim buxunum (Forseti hringir.) að flytja forræði málsins í Stjórnarráðinu úr umhverfisráðuneytinu og yfir til iðnaðarráðherra. Ég vildi gjarnan að hæstv. umhverfisráðherra kæmi í þingsal og svaraði spurningum um hvort þetta sé kannski undanfari þess.