143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

húsakostur Landspítalans.

394. mál
[16:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og tek heilshugar undir þau sjónarmið hans og röksemdir fyrir mikilvægi þess að halda áfram því verki að endurnýja húsakost Landspítalans.

Þeirri fyrirspurn sem til mín er beint er best svarað á þann veg að með þeim lögum sem samþykkt voru í mars 2013, sem breyttu þágildandi lögum um Nýja Landspítalann ohf. frá árinu 2010, fylgdi tímasett áætlun um framkvæmdir og kostnað byggingar á Landspítalanum og endurgerð húsakosts hans. Í framhaldi af þeirri fyrirspurn og í tengslum við hana, sem hv. þingmaður nefndi hér, frá hv. þm. Björt Ólafsdóttur, beindi ég þeim tilmælum til stjórnar nýs Landspítala að rýna þær kostnaðar- og tímaáætlanir fyrir byggingu spítalans sem fyrir lágu með þeim tilmælum að kanna hvort hægt væri að áfangaskipta verkefninu frekar en þar var gert, og sýnt hafði verið fram á. Einnig bauð Háskóli Íslands fram aðstoð Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands við að skoða kostnað og efnahagslegan ábata af þeim áformum sem þar um ræðir.

Ég tel rétt að bíða þessara tveggja úttekta áður en ákvörðun verður tekin um næstu skref, en ég vil engu að síður vísa til þeirrar ákvörðunar sem Alþingi tók í desember síðastliðnum við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2014 þar sem samþykkt var 100 millj. kr. fjárveiting til að halda áfram með fullnaðarhönnun á sjúkrahóteli á lóð Landspítalans við Hringbraut. Allar meginbyggingar eru nú forhannaðar og mér skilst að það nemi um 25% af heildarhönnun, auk þess sem allar skipulagsáætlanir hafa hlotið staðfestingu, þar með talið deiliskipulag fyrir nýbyggingar við Hringbraut.

Þá er einnig rétt að greina frá því við þessa umræðu að við undirbúning fjárlaga fyrir komandi ár mun ég óska eftir fjárveitingu vegna hönnunar á meðferðarkjarna á lóð Landspítalans og sömuleiðis í langtímaáætlun fjárlaga til loka ársins 2018. Þar mun ég sömuleiðis óska eftir fjármunum til hönnunar og undirbúnings á byggingu á nýju sjúkrahúsi.

Ég hef nýlega beint þeim tilmælum til stjórnar Nýja Landspítalans ohf. að halda áfram forvalsverkefninu sem hófst sumarið 2013 og lauk á síðastliðnu hausti þegar valdir voru fimm hönnunarhópar sem fullnægðu hæfnisskilyrðum til að fullhanna sjúkrahótelið. Á næstunni munu þessir fimm hópar fá tækifæri til að taka þátt í lokuðu útboði um fullnaðarhönnun sjúkrahótelsins sem verður um 4 þús. fermetrar að stærð. Gildistími forvalsins er til 21. maí og ætti fullnaðarhönnun sjúkrahótelsins að vera lokið í marsmánuði 2015. Fyrir þann tíma og fyrir umræðu um fjárlög ársins 2015 ættu umræddar úttektir að liggja fyrir þannig að ljóst sé hvort möguleiki sé á að áfangaskipta verkefninu á annan hátt eða vinna það með öðrum hætti.

Ráðherra hefur, samkvæmt þeim lögum sem um þessa framkvæmd gilda, heimild til að ákveða að minnstu byggingarhlutarnir séu boðnir út í formi leiguleiðar, en ljóst er að samkvæmt lögunum, sem samþykkt voru í mars á síðasta ári, er gert ráð fyrir að annars vegar meðferðarkjarninn, sem gera má ráð fyrir að kosti um 37 milljarða, og hins vegar rannsóknarhúsið, sem áætlað er að kosti um 9 milljarða, verði hefðbundnar opinberar framkvæmdir. Þar er um að ræða langstærsta kostnaðarhluta framkvæmdanna, um 80%, og þessum framkvæmdum verður því að finna, að óbreyttum lögum, stað í framkvæmdaáætlun ríkisins til að unnt sé að halda áfram með verkefnið.