143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

húsakostur Landspítalans.

394. mál
[16:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir að taka upp þetta mál um húsakost Landspítalans og spyrja hvað líði endurskoðun á framkvæmdaáætlun nýbyggingar og endurbótum á húsakosti Landspítalans. Um leið vil ég ítreka að ég tel að þetta sé eitt mikilvægasta verkefni okkar Íslendinga á næstu missirum. Það er ekki langur tími sem við höfum til þess að taka ákvörðun og fara í framkvæmdir. Að mínu mati getum við áfangaskipt verkefninu meira en lagt hefur verið til hingað til, ég kemst þó ekki yfir það hér í stuttri athugasemd, en það gerir verkið auðveldara í framkvæmd.

Virðulegi forseti. Á þessum stutta tíma getur maður ekki gert annað en að hvetja hæstv. ráðherra til þess að taka þátt í því með okkur sem viljum berjast fyrir því að framkvæmdir verði hafnar við nýjan Landspítala, eða endurbyggingu hans, fyrir starfsfólk, fyrir okkur sjálf og fyrir framtíðina vegna þess að ekki veitir af.