143. löggjafarþing — 97. fundur,  28. apr. 2014.

tilskipun um varðveislu fjarskiptaupplýsinga.

551. mál
[17:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu þeim hv. þingmönnum sem tekið hafa þátt í henni og ekki síst hæstv. ráðherra fyrir hennar skýru svör varðandi þau álitamál sem ég bar hér upp. Ég fagna því að ráðherrann sé sama sinnis að því er varðar sjálfa tilskipunina um gagnageymd, að það komi að sjálfsögðu ekki til álita að reyna að koma henni áfram í þinginu. Ég hef fylgst með umræðum um þetta mál í Noregi og veit að þar eru menn að velta fyrir sér hvernig vinda eigi ofan af málinu, því að þeir gengu þó alla leið þar og samþykktu tilskipunina. Þar er því verið að skoða þau mál.

Ég tel að það sé mikilvægt að fara mjög vandlega yfir þetta svið. Þó að ég hafi vísað hér í 42. gr. fjarskiptalaganna og hæstv. ráðherra einnig, og þá með það sjónarmið uppi að greinin hefði að geyma sömu réttarheimildir og tilskipunin, er ég ekki alveg sannfærður um að nóg sé að taka út 3. mgr. 42. gr. fjarskiptalaganna, að það sé eina sem eigi að gera. Það er ágætt að fá hugmynd um það frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, eins og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi, en ég held að það sé engu að síður mikilvægt að fara yfir málið miklu gaumgæfilegar en svo. Ég skildi hæstv. ráðherra þannig að hún hygðist setja einhverja vinnu í gang í því efni og ég fagna því. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við skoðum persónuverndarsjónarmið.

Það hafa auðvitað komið upp viðhorf frá lögreglunni eins og í vinnunni við gagnageymd hér í þinginu á síðasta kjörtímabili um að það gæti verið mikilvægt að hafa slíkar upplýsingar við að upplýsa sakamál, en það skiptir máli hvernig um það er búið ef það á að vera til staðar og að það séu þá alltaf dómstólar sem skeri úr um það og það geti ekki verið þannig að safna skuli öllu ef ske kynni (Forseti hringir.) að einhverjar upplýsingar skyldu koma að gagni síðar. (Forseti hringir.) Ég mæli því með því að menn vandi sig í þessu efni og taki sér góðan tíma til að fara yfir þessi mál í heild sinni.