143. löggjafarþing — 100. fundur,  29. apr. 2014.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

565. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar vegna þingsályktunartillögunnar sem nú er á dagskrá. Málið kom inn í þingið í gær og hæstv. utanríkisráðherra mælti fyrir því þá. Nefndin koma saman í gærkvöldi og síðan aftur í morgun út af þessu máli og fékk til sín gesti frá utanríkisráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Isavia, Icelandair og WOW air.

Þess ber að geta að nefndin hafði áður fengið nokkrar upplýsingar um þetta mál en aðstæður voru hins vegar með þeim hætti að ekki var unnt að taka það fyrir og til þinglegrar meðferðar fyrr en í gær. Tímafrestir sem eru í málinu gera það að verkum að mikilvægt er að meðferð þess ljúki í þinginu í dag svo að unnt sé að koma á framfæri tilkynningum um niðurstöðuna með formlegum hætti til samstarfsaðila okkar innan EFTA og gagnvart ESB á morgun.

Mál þetta ber brátt að en á sér nokkra sögu sem rakin er í nefndaráliti og ég ætla ekki að fara ítarlega út í hér. Ég ætla að gera grein fyrir þeim tveimur þáttum málsins, ef svo má segja, sem skipta máli í sambandi við þessa umfjöllun. Annars vegar er efnisþáttur málsins og hins vegar er formhliðin. Ég leyfi mér að segja að ekki hefur verið ágreiningur innan utanríkismálanefndar um efnishlið málsins, sem felur það í stuttu máli í sér að verið er að fresta því að reglur sem gilda um loftslagskvóta innan Evrópska efnahagssvæðisins taki til flugs út fyrir svæðið. Meginbreytingin sem í þessu felst er að verið er að fresta því áfram að reglur um loftslagskvóta nái til þess flugs sem fer inn og út af Evrópska efnahagssvæðinu. Í okkar tilviki skiptir Ameríkuflugið auðvitað langmestu máli þó að fleiri atriði komi þar inn í. Breytingin sem felst í þessu er sem sagt frestun til 2016 miðað við það sem hér er gert ráð fyrir. Eins og rakið er í nefndaráliti felur þessi frestun, ásamt þeim breytingum sem eiga sér stað samhliða, fyrst og fremst í sér ívilnun til þeirra aðila sem starfa á þessum markaði. Um er að ræða ívilnanir sem fela það í sér að viðkomandi aðilar þurfa þá ekki að kaupa loftslagskvóta vegna flugs út af Evrópska efnahagssvæðinu og inn á það.

Það eru ýmis atriði sem skipta ekki síður máli. Þeim aðilum sem reglurnar ná til fækkar til mikilla muna. Í dag eru 300 flugrekendur sem heyra undir íslensk stjórnvöld að þessu leyti, en með þeirri breytingu sem hér er gert ráð fyrir verður ákveðin stærðartakmörkun. Í því sambandi verða líklega aðeins um tíu aðilar sem heyra undir lögsögu íslenskra stjórnvalda og verða þá skuldbundnir til þess að fylgja þessum reglum. Þar er því um verulega ívilnun að ræða sem skiptir máli fyrir þá aðila sem eiga í hlut en léttir líka stjórnsýslu og þann kostnað sem opinberir aðilar hafa af umsjón með kerfinu.

Þetta er svona í hnotskurn eða í mjög stuttu máli efnishlið málsins. Ísland varð hluti af þessu kerfi árið 2012 og voru ákveðnir þættir í því máli umdeildir. Hér er um að ræða atriði sem fela fyrst og fremst í sér ívilnun frá því sem þá var samþykkt. Það sem skiptir miklu máli fyrir þá sem reka starfsemi á þessu sviði hér á landi er að með því að láta þessar breytingar taka gildi hér lenda þeir ekki í verri samkeppnisstöðu en aðrir keppinautar sem fljúga viðkomandi leiðir. Ef íslensk stjórnvöld og Alþingi aðhefðust ekkert í þessu máli væri ákveðin hætta á því að þeir flugrekendur sem sinna flugi út af og inn á Evrópska efnahagssvæðið lentu í verri samkeppnisstöðu og auknum kostnaði miðað við þá sem þeir keppa við. Með því að afgreiða málið með þeim hætti sem hér er lagt upp með er komið í veg fyrir að þessir aðilar beri skarðan hlut frá borði, ef svo má segja, miðað við aðstæður.

Ég tek það fram að auðvitað fékk þessi þáttur málsins nokkra umfjöllun í utanríkismálanefnd en ekki varð sérstakur ágreiningur um það. Þess ber að geta í sambandi við efnisþátt málsins að gert er ráð fyrir því að frumvarp til laga komi inn á haustþing frá umhverfis- og auðlindaráðherra um þetta efni og við fáum þá tækifæri til þess að fjalla nánar um efnishlið málsins.

Varðandi formhliðina þá fékk hún nánari umfjöllun í nefndinni vegna þess að málið bar að með óvenjulegum hætti. Það sem er óvenjulegt í þessu máli er að með þessari þingsályktunartillögu er Alþingi fyrir fram beðið um að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara vegna reglugerðar sem ætlunin er að taka upp í EES-samninginn. Venjan er sú að mál eru tekin upp í EES-samninginn, síðan í framhaldi af því er komið til þingsins og óskað eftir því að stjórnskipulegum fyrirvara sé aflétt ef þörf er lagabreytingar í slíkum tilvikum, en vegna þess hvernig aðstæður eru og hvað tíminn er skammur var það mat ríkisstjórnar og utanríkisráðuneytis og umhverfisráðuneytis sérstaklega, sem um þetta mál fjalla, að nauðsynlegt væri að standa að málinu með þessum hætti.

Um þetta er þó nokkuð fjallað í nefndarálitinu en ég ætla ekki að rekja það í smáatriðum þótt freistandi sé. Ég vil þó geta þess að til eru nokkur dæmi um að óskað hafi verið eftir því við þingið að það aflétti stjórnskipulegum fyrirvara fyrir fram. Þau dæmi eru rakin í nefndarálitinu. Þetta mál er ekki með öllu sambærilegt við þau tilvik vegna þess að reglugerð ESB, sem málið snýst um, hefur ekki tekið gildi og verður ekki birt fyrr en á morgun. Þetta olli nokkurri umhugsun hjá nefndinni um það hvort verið væri að ganga lengra en eðlilegt og heppilegt væri. Það má segja að niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að í fyrsta lagi væri þetta tæk leið, okkur væri ekki óheimilt eða ómögulegt að gera þetta með þessum hætti. Í annan stað varð það niðurstaða okkar að mikilvægt væri að gera þetta vegna þeirra hagsmuna sem hér eru undir. Hins vegar tökum við fram í nefndaráliti að við teljum að þær afbrigðilegu aðstæður sem uppi eru í málinu geri að verkum að það verði ekki hægt að líta á það sem fordæmisgildi eða nota það til þess að breyta með einhverjum hætti þeim venjulegu viðmiðunum og vinnureglum sem í gildi eru og viðhafðar hafa verið hvað varðar upptöku reglna af þessu tagi.

Það sem málið snýst um og er óvenjulegt við það er að reglugerð ESB er óbirt, eins og sagt er. Það lá fyrir 3. apríl hver niðurstaða Evrópuþingsins var í þessu máli en á hinn bóginn lá ekki fyrir endanlegur texti reglugerðar fyrr en 14. apríl sl. Þingið fór heim 11. apríl þannig að ekki var unnt að taka málið fyrir fyrir páska svo að við vorum í þeirri stöðu að ekki var möguleiki á öðru en að taka það fyrir eftir páska og til þess ráðs var þá gripið.

Ég held að ég láti þetta nægja sem yfirferð yfir nefndarálitið. Ég vísa að öðru leyti til þess sem þar kemur fram, bæði um formhlið málsins og efnis, og vonast til þess að sú góða samstaða sem náðist um málið innan utanríkisnefndar, þó að vissulega kæmu þar fram eðlilegar og málefnalegar spurningar um ýmsa þætti málsins, haldist í þinginu þannig að við eigum þess kost að klára málið tiltölulega hratt svo að við getum tryggt að þær ívilnanir sem felast í þeim breytingum sem þar eru lagðar til nái líka til íslenskra flugrekenda.