143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

lækkun væntingavísitölu.

[15:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í dag bárust fréttir um væntingavísitölu Gallups sem tók óvænta dýfu í aprílmánuði. Þær niðurstöður sem mesta athygli vekja í fregnum af þróun væntingavísitölu eru að aukinnar svartsýni gætir fyrst og fremst meðal þeirra sem eru í tekjulægsta hópi íslensks samfélags.

Farið er nokkuð nákvæmlega yfir þetta í fréttum. Þar hefur svartsýnin hjá tekjulægsta hópnum aukist verulega. Þannig mældist undirvísitala fyrir svarendur með tekjur undir 250 þús. kr. á mánuði 48 stig nú í apríl, samanborið við 93,4 stig í mars. Vísitalan hrapar því um 45 stig milli mánaða. Á sama tíma lækkar undirvísitala þeirra sem hafa tekjur yfir 550 þús. kr. á mánuði um tæp 14 stig og fer niður í 98,9 stig. Þarna sjáum við dálítið merkilega þróun og hún vekur spurningar: Af hverju hrapa væntingar þeirra sem eru í tekjulægsta hópnum?

Ástæða þess að mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra um þetta er sú að ójöfnuður er eitt helsta viðfangsefni stjórnmála samtímans. Það á við ekki bara hér á Íslandi heldur um heim allan. Þróunin, sérstaklega í vestrænu ríkjunum og Bandaríkjunum auðvitað, hefur verið sú að auður hefur færst á æ færri hendur þannig að sú þróun sem sjá mátti í vestrænum ríkjum á árunum 1945–1980 í átt til aukins jafnaðar hefur gerbreyst. Þó að jöfnuður hafi aukist á Íslandi á síðustu árum, ekki síst vegna ýmissa aðgerða sem var gripið til af hálfu fyrri ríkisstjórnar í skattkerfinu og víðar, velti ég fyrir mér hvort þetta hrap væntinga tekjulægsta hópsins sýni að menn hafi áhyggjur af því að ójöfnuður sé að aukast.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi áhyggjur af þessari þróun og hvort hann telji það mjög mikilvægt að stjórnvöld setji sér einhver markmið sem þau vilja ná hvað varðar jöfnuð í samfélaginu. (Forseti hringir.)