143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

réttur fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs.

[15:11]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að nota tækifærið og eiga örlítinn orðastað við hæstv. félagsmálaráðherra um mál sem ég tel, og margir aðrir telja, mikið mannréttindamál og varðar rétt fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs sem er meðal annars kveðið á um í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem við höfum samþykkt og undirritað.

Ein besta leiðin til að fatlað fólk njóti réttar síns til sjálfstæðs lífernis er að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð. Hér í þingsal var samþykkt einróma sumarið 2010 að það skyldi koma á og tryggja í lögum fyrir árslok á þessu ári að notendastýrð persónuleg aðstoð yrði einn af meginvalkostum í þjónustuformi fyrir fatlað fólk á Íslandi. Notendastýrð persónuleg aðstoð snýst einfaldlega um að fötluðu fólki er þar með tryggð aðstaða til að ráðstafa lífi sínu eftir eigin höfði, ákveða einfaldlega sjálft hvenær það skiptir um sokka eða þvær á sér hárið eða horfir á ensku knattspyrnuna eða gerir hvaðeina annað sem fólk almennt kýs að gera í lífinu. Margar þjóðir hafa innleitt þetta sem þjónustuform. Ég fór sjálfur fyrir verkefnisstjórn um innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð, er kunnugt um það að tilraunaverkefni sem kveðið er á um í lögum gekk ágætlega. 50 slíkir samningar um notendastýrða persónulega aðstoð voru gerðir hér á landi og hafa tryggt þeim einstaklingum sjálfstætt líf.

Núna vil ég einfaldlega spyrja hæstv. félagsmálaráðherra, og vonast eftir góðum og uppbyggilegum svörum, hvort ekki miði vel í því að skrifa frumvarp til laga um að innleiða notendastýrða persónulega aðstoð sem þjónustuform fyrir fatlað fólk á Íslandi og hvort það komi ekki örugglega inn í þingið í haust.