143. löggjafarþing — 101. fundur,  30. apr. 2014.

þrotabú gömlu bankanna og skuldaleiðrétting.

[15:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að byrja á því að óska hæstv. forsætisráðherra gleðilegs sumars. Af því að nú er liðið eitt ár frá alþingiskosningum er kannski kominn tími til að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvar eru 300 milljarðarnir? Þá á ég auðvitað við þá 300 milljarða sem hæstv. forsætisráðherra boðaði að mundu skapast í samningum við þrotabú föllnu bankanna. Af því að við vitum út af fyrir sig að þessir 300 milljarðar eru enn ekki í húsi hjá forsætisráðherra er kannski rétt að óska eftir að heyra frá honum hvað hann hefur gert og til hvaða ráðstafana hann hefur gripið til að tryggja að þessir peningar skili sér. Sömuleiðis hvort það sé enn mat hans að það sé raunsætt að 300 milljarðar fáist í þessum samningum.

Eftir að hafa skoðað nokkuð stöðuna vil ég bæta aðeins í og spyrja forsætisráðherra hvort hann telji það ekki vanmat, hvort gjaldeyrishöftin og hin erfiða staða þjóðarbúsins leyfi það nokkuð að losa um gjaldeyrishöftin með aðeins 300 milljarða niðurfærslu á þessum eignum. Er þörfin til þess að leysa megi landið úr gjaldeyrishöftum og endurheimta hér efnahagslegt sjálfstæði ekki meiri en 300 milljarðar?

Ég veit að forsætisráðherra hefur takmarkaðan tíma en ég hugsa líka að ýmsir spyrji sig hvort þetta svigrúm, ef og þegar það skapast, verði nýtt til þess að auka við þá leiðréttingu sem boðuð hefur verið. Mega skuldug heimili þá vænta meiri stuðnings en gert er ráð fyrir á þinginu núna? Er þá ekki óhjákvæmilegt ef á að skapa þessi miklu verðmæti úr þessum samningum eða uppgjörum föllnu bankanna að í því felist sala á viðskiptabönkunum (Forseti hringir.) Arion og Íslandsbanka? Þurfum við ekki á þinginu að fjalla um með hvaða hætti (Forseti hringir.) eigi að standa að slíku?