143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[14:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála þeim frumvörpum sem hér liggja fyrir að mestu leyti. Þessi uppstokkun á embættum lögreglustjóra hefur ekki bara verið í gangi síðustu árin, hún var eitt af aðalmálunum fyrsta árið sem ég kom á þing 1991 og enn eru menn að slást í þessu sama. Það er hugsanlegt — hugsanlegt — að mönnum takist að ná landi núna í þessu ferðalagi okkar.

Ég er auðvitað eins og hv. þingmaður þeirrar skoðunar að það beri að prísa og lofa lögregluna, hún stendur sig vel eins og hv. þingmaður sagði hér áðan. Mér varð samt um og ó þegar hv. þingmaður sagði að það væri svo gott að sjá lögregluna á vegum úti vegna þess að þá kitlaði hann pinnann minna en endranær. Ef það eru einhverjir, frú forseti, sem eiga að fara að lögunum jafnvel þó lögreglan sé ekki í námunda, eru það þeir sem setja lögin eins og ég og hv. þingmaður.

Mitt raunverulega erindi hingað í ræðustól er að spyrja hv. þingmann um viðhorf hans til eins tiltekins þáttar. Þetta frumvarp og þessi uppstokkun á lögreglustjóraembættum er auðvitað til þess að gera þau skilvirkari og ná sem mestu fyrir þá fjárveitingu sem er látin til lögreglumála. Hvað segir hv. þingmaður um þá hugmynd, sem ég hef nú verið svolítið skotinn í, um töluverða hríð, að sameina ríkislögreglustjóra við t.d. embætti lögreglustjórans í Reykjavík? Á sínum tíma, þegar ríkislögreglustjóri var settur á stofn, átti þetta að vera lítið og krúttlegt embætti. Ég varaði strax við því að það mundi blása út. Sú hefur orðið raunin. Í dag er þetta embætti að gleypa 1,6 milljarða ef ég man rétt. Telur ekki hv. þingmaður að það sé að minnsta kosti einnar messu virði að skoða það að sameina eitt af stærstu lögreglustjóraembættunum við ríkislögreglustjóra og leggja hann bara niður?