143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[15:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig alltaf að samhugur ríki um þessi mál og það gleður mig að hv. þingmaður taki undir það að fullt tilefni sé til að nýta netið betur til að vinna þau mörgu verkefni sem lögreglan þarf að sinna. Það er gaman þegar verkfæri verður til sem getur gegnt mörgum mismunandi hlutverkum, löggæslu og valddreifingu og eflingu landsbyggðar, fyrir utan einfaldan hagvöxt ef út í það er farið.

Þá er ég með aðra spurningu sem er kannski ekki jafn skemmtileg. Hún er þessi: Mín tilfinning við afgreiðslu þessa máls í hv. allsherjar- og menntamálanefnd er sú að almennt ríki stuðningur við þetta. Vissulega á meðal landsbyggðarþingmanna og hv. þingmaður, sem er lögreglumaður, er hlynntur þessu. Skynjun mín svona almennt hefur verið sú að þetta sé jákvætt skref. Því vekur það athygli mína að Landssamband lögreglumanna hafði ekki fögur orð um þetta til að byrja með og lagðist upprunalega gegn því að Alþingi væri að breyta því hvernig staðið væri að skipun lögreglumanna. Þetta er eitthvað sem ég hef ekki mikla innsýn í og langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann geti deilt með okkur einhverju frekar um það hvaða helstu þættir það eru sem lögreglumenn sjálfir hafa mestar áhyggjur af, hvað við getum gert til að koma til móts við það og lýst því hvað veldur því að þarna er, að því er virðist, einhver tortryggni.

Að því sögðu hefur minn skilningur verið sá að almennt sé sátt um þetta. Ég skynja samt eitthvert ósætti sem ég skil ekki alveg. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður geti eitthvað leiðbeint mér og okkur í þeim efnum.