143. löggjafarþing — 102. fundur,  2. maí 2014.

framkvæmdarvald og stjórnsýsla ríkisins í héraði.

250. mál
[16:06]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og tek undir með honum um að vissulega eigi öryggi borgaranna ævinlega að vera í fyrirrúmi. En skylda okkar hér er auðvitað að fara vel með almannafé og ráðstafa því sem best í þágu öryggis íbúanna.

Hv. þingmanni er tíðrætt um réttindi borgaranna þegar þeir eiga í samskiptum við lögregluna. Í fyrravor ræddum við ákveðna skýrslu sem snýr að löggæslunni, það er afar viðamikil og góð skýrsla og kemur fram að öryggi lögreglumannanna er ekki alltaf í lagi, þeir hafa einmitt verið einir á ferð í stórum landsbyggðarkjördæmum. Síðan voru lagðir fjármunir í það núna að fjölga lögreglumönnum aftur til þess að reyna að dekka þess háttar hluti. Ég held að við þurfum að gæta að öryggi löggæslumanna og -kvenna og auka öryggi borgaranna um leið.

Af því að við erum að tala um svo viðamiklar breytingar sem ekki liggur fyrir hvernig munu líta út, telur hv. þingmaður eðlilegt það sem gjarnan hefur verið gert, að Ríkisendurskoðun sé falið að taka út svona viðamiklar skipulagsbreytingar, hvernig þær hafi tekist til og annað því um líkt? Lögreglan hefur verið að ganga í gegnum ýmsar breytingar eins og fram kom í málflutningi hv. þm. Vilhjálms Árnasonar og það kemur einnig fram í athugasemdum Landssambands lögreglumanna að þeir telja að ekki hafi tekist vel til þar. Er hv. þingmaður sammála mér í því að æskilegt hefði verið, (Forseti hringir.) og ætti kannski bara að gera það burt séð frá þessu frumvarpi, (Forseti hringir.) að fá Ríkisendurskoðun til þess að taka út þær breytingar sem (Forseti hringir.) átt hafa sér stað?