143. löggjafarþing — 103. fundur,  6. maí 2014.

tillögur verkefnisstjórnar í húsnæðismálum.

[13:43]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fagna því að niðurstöður verði kynntar í dag kl. fjögur, þ.e. þær niðurstöður sem hv. þingmaður hefur eins og ég og margir aðrir lengi beðið eftir. Af því leiðir að sjálfsögðu að ríkisstjórnin er ekki búin að taka ákvörðun um mál, sem hefur verið í vinnslu og búið er að kynna, áður en niðurstöður verða kynntar. Það segir sig eiginlega sjálft að þegar sérfræðingum og starfshópum er falið að vinna undirbúningsvinnu þá bíða menn eftir niðurstöðum þeirrar vinnu áður en ákvarðanir eru teknar um framhaldið. Það er mikið tilhlökkunarefni að fá þessa kynningu nú síðdegis.

Þá er komið að annarri spurningu hv. þingmanns. Það er ljóst að þarna verður sérstaklega fjallað um hvernig megi bæta stöðu húsnæðissamvinnufélaga og gera hlut þeirra væntanlega meiri vegna þess að þetta er form sem getur gagnast töluverðum hópi fólks og hjálpað því að komast í húsnæði. Ég á von á ágætistíðindum hvað varðar framtíð þess fyrirkomulags í tillögum hópsins.

Svo varðandi þriðju spurninguna þá er það rétt sem hv. þingmaður gat um að ákveðnum spurningum er varða verðtrygginguna og áform um afnám hennar var vísað inn í þessa vinnu og við höfum fengið að fylgjast með vinnunni að sjálfsögðu og undirbúum næstu skref í beinu framhaldi af kynningunni síðdegis í dag. Það er reyndar búið að fjalla um þetta á ráðherranefndarfundi en ég geri ráð fyrir því að næstu skref hvað varðar afnám verðtryggingar verði kynnt á ríkisstjórnarfundi næstkomandi föstudag.