143. löggjafarþing — 106. fundur,  6. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[18:39]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér er talað um að verðlagsáhrif sem leiða af gjaldskrárhækkunum, sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga, verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands, 2,5%. Það hlýtur þá að eiga að vera þannig að verðlagsáhrif allra hækkana verði innan við þessi verðbólgumarkmið upp á 2,5%. Ég fæ ekki séð að þær breytingar sem hér eru lagðar til, hvort sem þær eru teknar í heild sinni eða ekki, ég tala nú ekki um að teknu tilliti til þeirrar frestunar sem orðið hefur á gildistöku þeirra, geti leitt til þess að breytingar á gjöldum sem hafa verið samþykktar í tengslum við afgreiðslu fjárlaga verði innan verðbólgumarkmiða Seðlabankans. Ég fæ ekki séð að það geti orðið. Í gögnum málsins, í nefndaráliti eða einhverju þess háttar, eru hvergi útreikningar sem sýna það. Ég tel að það hljóti að vanta mikið upp á það, fyrir utan að þessar lækkanir koma misjafnlega við fólk. Ég benti á og fleiri í þessari umræðu að samtök launafólks, Alþýðusambandið og Starfsgreinasambandið, sem eru mjög stór stéttarfélög launafólks, hefðu einmitt lagt áherslu á að það hefði komið sér betur fyrir þeirra hópa að lækkunin hefði verið á öðrum sviðum.

Eins og hér hefur verið leitt fram ítrekað í umræðunni þá hafði ríkisstjórnin ekkert samráð um hvaða leiðir yrðu farnar. Þetta var val ríkisstjórnarinnar og við sjáum að sjálfsögðu pólitíska áherslu í því. Hv. þingmaður sagðist ekki vera ánægður með að menn ættu að stýra með verðlagningu, en það er alltaf verið að stýra einhverju með verðlagningu, það er alveg sama hvað það er. Þetta er að sjálfsögðu líka stýring.