143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

staða sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.

[11:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í janúar sl. átti ég frumkvæði að því að hér fór fram sérstök umræða um stöðu sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu. Mig langar að gera það að umtalsefni í dag þegar stutt er í þinglok og vil inna hæstv. heilbrigðisráðherra eftir því hver staða þess máls er.

Í umræðunni í lok janúar lýsti hæstv. heilbrigðisráðherra þeirri skoðun sinni og einlægum vilja að semja við Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins um að halda samvinnunni áfram, samvinnu ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að því er varðar sjúkraflutninga. Ég gat ekki skilið hæstv. heilbrigðisráðherra öðruvísi en svo í þeirri umræðu en að ráðuneytið mundi freista þess að ná samkomulagi við sveitarfélögin og ræða við þau út af þeim ágreiningsmálum sem uppi voru varðandi bæði uppgjör og kostnaðarútreikninga vegna þessara sjúkraflutninga.

Nú eru liðnir nokkrir mánuðir, þrír, fjórir mánuðir, síðan sú umræða fór fram og einhverjar fréttir voru af því að sveitarfélögin væru að búa sig undir það að láta af þessari starfsemi, hætta henni. Ég vil því inna hæstv. heilbrigðisráðherra eftir því hver staða málsins sé núna. Hvað hefur hæstv. heilbrigðisráðherra gert í málinu síðan umræðan fór fram hér í janúarlok? [Kliður í þingsal.] Hefur ráðherrann verið í — (Forseti hringir.)

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)

Hefur ráðherrann verið í einhverjum samskiptum við sveitarfélögin síðan? Hvenær átti þá ráðuneytið síðast fundi með sveitarfélögunum um þetta mál? Ég mundi þiggja að hæstv. heilbrigðisráðherra færi stuttlega yfir stöðu málsins og greindi þinginu frá henni og þeirri sýn hann hefur á framvindu og endalok þessa máls.