143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að vísu að viðurkenna að ég kannast ekki við að séreignarlífeyrissjóðakerfið hafi verið sett á stofn til að létta undir almannatryggingakerfinu. Þekki ég það þó nokkuð vegna þess að ég var að vinna hjá lífeyrissjóði þegar það var sett á laggirnar og var mikið að kynna það og mikið inni í því. Það var viðbót við það lífeyriskerfi sem er núna sem á að létta af almannatryggingakerfinu. Þannig er til dæmis heimilt að taka út séreignina um 60 ára aldur, en eðli máls samkvæmt hefur enginn farið á lífeyri um 60 ára aldur og ekkert sem bendir til þess að svo verði. Þvert á móti verður þróunin örugglega í hina áttina, þannig að ég skil ekki alveg þá röksemdafærslu.

Rauði þráðurinn í gagnrýni hv. þingmanns er sá að þetta nýtist hinum tekjuhæstu best. Röksemdin er sú að menn fái í raun meiri skattafslátt eftir því sem menn hafi hærri tekjur og greiði þar af leiðandi meira inn í séreignina.

Þessi röksemd á við um allt lífeyriskerfið og allt séreignarkerfið eins og það er núna. Með sömu rökum er hægt að segja að með því að vera ekki með neinn fjármagnstekjuskatt á lífeyrissjóðum og séreignarlífeyrissjóðum sé verið að umbuna og hygla hinum tekjuhærri, með nákvæmlega sömu rökum.

Ég hlýt þess vegna að spyrja hv. þingmann, og ég spurði hv. þingmann að þessu þegar hann ræddi þetta hér á sínum tíma en fékk engin svör, þá fór ég í andsvör við nákvæmlega þessu: Er hv. þingmaður fylgjandi því að setja fjármagnstekjuskatt á lífeyrissparnað og séreignarlífeyrissparnað? Ef ekki þá er hv. þingmaður fylgjandi því að hygla þeim sem eru með hærri tekjur.