143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:37]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að ég er búin að sitja hér í allan dag og hlusta á ræður, andsvör og annað því um líkt, og eins og ég kom inn á í ræðu minni, þá er ég mér fullmeðvituð um þessa nýju tillögu hæstv. húsnæðismálaráðherra. Þó að ég hafi ekki lesið hana í þaula er ég samt búin að renna yfir hana. Ég hef spurt mig, og gæti allt eins snúið spurningunni upp á þingmanninn sem er í andsvari við mig: Hvað kosta þær tillögur sem þar eru ræddar? Hvernig á að borga þær og á hvaða tíma? Þess vegna hefði kannski verið skynsamlegt að taka hópinn í heild sinni, fyrst fara átti í almennar aðgerðir, og skoða hvað við höfum til ráðstöfunar og hvernig við getum gert þetta. Mér finnst það ábyrgðarhluti að það sé ekki gert, að hér séu svo stórir hópar út undan. Ég segi það aftur að ég hef áhyggjur af því að þetta leysi ekki greiðsluvanda mjög margra, það sem hér er verið að boða.