143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hér sé ekki um neinar andstæður að ræða. Það sem ég var að benda á er að í þessum aðgerðum er verið að leggja upp í óvissuferð. Það er ekki vitað hver útgjöld ríkissjóðs munu verða af aðgerðunum og það er vitað samkvæmt þeim greiningum sem við þó höfum að þeir sem mest munu fá út úr þeim eru þeir sem hæstar tekjur hafa. Það sem ég er að benda á er að minni tekjur ríkissjóðs, minni tekjur sveitarfélaga verða til þess að það kemur niður á almannaþjónustu og almannatryggingum jafnvel. Einhvers staðar frá verða peningarnir að koma.

Þessi notkun á séreignarsparnaðinum kann alveg að vera réttlætanleg að einhverju leyti. En hér er mjög ríkulega veitt. Gerð er breyting úr 500 þús. kr. hámarki á ári í 750 þús. kr. hámark á ári án útskýringa. Þar vantar ekki fjármunina. En það þykir algerlega réttlætanlegt að segja já/nei. Leigjendur og þeir sem eru að taka út séreignarsparnaðinn af því að þeir eru komnir á eftirlaun, við getum ekki verið að horfa á það fólk, en við getum horft á fólkið sem hefur tök á að spara 750 þús. kr. í séreignarsparnað á ári og við vitum ekki alveg hvað það kostar. Þetta er óábyrgt og mér finnst það ranglátt.