143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[21:16]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður svaraði ekki spurningunni. Hvernig fer það saman að sú aðgerð sem hér er sé hættuleg ríkissjóði og sveitarfélögum en hv. þingmaður er engu að síður tilbúinn til að taka inn fleiri aðila sem njóta aðgerðarinnar? Hvernig fer það saman að aðgerðin sé ómöguleg fyrir þá hópa sem fá en við eigum samt að bæta við fleiri hópum að mati hv. þingmanns?

Aðgerð þessi er til þess að draga úr skuldabyrði fólks, til að auka eignarstöðu fólks í íbúðarhúsnæði sínu. Séreignarsparnaður getur ekki aukið eignarstöðu þess sem ekkert á í húsnæði, þannig að ég segi það upphátt. Og það að taka inn þá sem ekki eru tilgreindir í frumvarpinu og ræða að það hefði átt að taka þá inn langar mig að biðja þingmanninn um að útskýra örlítið frekar.

Virðulegur forseti. Vegna þess sem hv. þingmaður beindi hér að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2005–2007 vænti ég þess að hv. þingmaður, sem er þingmaður Samfylkingarinnar, hafi líka lesið það sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar lögðu til þá í sambandi við 90% lán en þeir vildu ganga lengra en ýmsir aðrir sem töluðu þá. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hún að málflutningur samfylkingarþingmanna á þeim tíma hafi verið rangur eða var hann réttur?