143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert léttvægt við að horfa upp á fjölda heimila sem eru yfirskuldsett. Hvorki þetta frumvarp né það frumvarp sem við ræðum á morgun mun leysa vanda þeirra heimila.

Það er talað um að þetta séu kannski 5–10% af öllum heimilum í landinu, flest fasteignareigendur en ekki öll. Einhver eru leigjendur. Það er nokkuð sem við þurfum að leysa eða það verður einhvern veginn leyst.

Þetta frumvarp fjallar ekki um það. Þetta frumvarp fjallar um að með skattalegum aðgerðum sé hvatt til sparnaðar, annaðhvort með því að hefja séreignarsparnað sem ég tel að 10, 20, kannski 30 þúsund heimili muni byrja á því að spara sem hafa ekki gert það hingað til, af því að það er svo mikill hvati.

Svo eru önnur sem eru í kerfinu í dag sem eru miklu fleiri, sem eru í séreignarsparnaði. Þau munu nota þennan möguleika til að borga niður skuldir, þ.e. skulda minna til framtíðar, vera þá skuldlaus fyrr og eiga eign í framtíðinni. Talandi um sveitarfélögin og vandamál þeirra er miklu betra fyrir sveitarfélögin að vera með borgara sem skulda minna. Þau þurfa minni félagsþjónustu o.s.frv., þau eru sjálfstæðari fjárhagslega en hinir sem ekki eiga fasteign og eru berskjaldaðri fyrir öllum áföllum.