143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Með því frumvarpi sem við ræðum er ekki verið að gefa einum eða neinum neitt. Það er verið að veita fólki afslátt frá sköttum, þ.e. það þarf að borga minni skatta. Eins og ég nefndi áðan tel ég að fólk eigi tekjur sínar og eignir. Það að við skulum skattleggja þessar tekjur og eignir er eiginlega frávik frá eignarréttinum. Þetta er skattalækkun ef menn vilja nota sparnaðinn í því skyni sem við töluðum um, að borga niður skuldir eða hefja sparnað til að kaupa sér eign.

Ég held að í þessu frumvarpi og þessum loforðum hafi ekki verið vænting eins eða neins. Það stóð ekki til að gefa fólki neitt.

Hins vegar ef þetta fer inn á greiðslujöfnunarreikning, svo ég tali nú um hann, þá var hann settur á 2009 til að mæta því að laun höfðu lækkað og hann var miðaður við janúar 2008, ef ég man rétt, settur á með lögum en menn gátu undanskilið sig, fengið undanþágu en þurftu að biðja um það. Þetta fór almennt yfir alla nema þá sem báðu sérstaklega um það.

Það þýðir að menn borguðu minna en lánskjörin sögðu til um. Sá hlutur fór inn á sérstakan reikning sem er skuld með nákvæmlega sömu kjörum og lánið sjálft.

Ég hef verið að skoða nokkur svona lán og ég sé engar líkur til þess að þetta lengi lánstímann um meira en þrjú ár, því að lánstíminn lengist, og þetta falli niður. Ég sé engar líkur til þess.

Þetta verður nákvæmlega eins og hin skuldin nema lánstíminn lengist.