143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[22:42]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst að því sem ég komst ekki yfir í fyrra svari og varðaði spurningu hv. þingmanns um húsnæðissparnað og hvernig ég sæi fyrir mér sparnað ef ekki þessa leið.

Ég sagði að ég teldi mikilvægt að auka sparnað í samfélaginu en ég sé hins vegar ekki rökin fyrir því að blanda almennum húsnæðissparnaðarformum saman við lífeyrissparnaðinn eins og hér er gert. Ég tel að húsnæðissparnaður sé af hinu góða; á sínum tíma var til það sem kallað var skyldusparnaður. Mér finnst eftirsóknarvert að stuðlað sé að sparnaði fyrir ungt fólk, þess vegna ungt fólk sem ekki er með miklar tekjur, sem getur kannski ekki nýtt sér þá leið sem hér er farin. Ég hefði frekar séð fyrir mér einhverja þess háttar leið að því er varðar húsnæðissparnaðinn.

Að spurningu hv. þingmanns um forsendubrestinn þá getur maður aðeins leyft sér að láta hugann reika aftur til haustsins 2008 þegar efnahagshrunið varð. Þá var gripið til ýmissa ráðstafana, neyðarráðstafana, neyðarlaga og þess háttar sem tók á ýmsum þáttum. Ég er ekki frá því að hugsanlega hefði verið mikilvægt í neyðarlögunum á haustmánuðum 2008 að setja inn ákvæði sem hefðu fryst verðtrygginguna, þótt ekki hefði verið nema til skamms tíma á meðan menn væru að ná áttum, að átta sig á því hvað væri að gerast, að setja þá þak á verðtrygginguna. Ég tel að það hefði verið nauðsynlegt. Eftir því sem leið frá hruni hafði það síður sama tilgang, en ég er ekki frá því að það hefði verið mikilvægt.

Ég lít líka þannig á (Forseti hringir.) að því er varðar forsendubrest og aðgerðir ríkisvaldsins og hins opinbera að hlutverk hins opinbera sé að auka jöfnuð í samfélaginu og ég hef ekki sannfæringu (Forseti hringir.) fyrir því að þessi leið geri það.