143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:13]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þau svör sem hún veitti mér. Í ræðu sinni áðan talaði hún um þær breytingar sem orðið hafa á húsnæðiskerfinu og urðu hér fyrir talsvert mörgum árum. Þar talaði hv. þingmaður m.a. um 90% lánin. Hún sagði að hún hugsaði svolítið baka þegar hún læsi um þær tillögur sem nú eru komnar fram varðandi ýmsar breytingar á húsnæðismarkaði og ýmsar hugmyndir þar að lútandi.

Núna fyrir stuttu síðan eða bara í síðustu viku skilaði verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála af sér tillögum til hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Þar er tekið á ýmsum þáttum og m.a. eru tillögur um hvernig koma eigi íbúðum inn á leigumarkað til þess að auka framboð íbúða. Hvernig líst hv. þingmanni á þær tillögur og hvað finnst henni um að nýta stofnstyrkjakerfi í stað beinna vaxtaniðurgreiðslna til að lækka leiguverð í húsnæðissamvinnufélögum? Í tillögunum er jafnframt talað um jafna stuðning við þá sem eiga húsnæði, leigja húsnæði og varðandi húsnæðisbætur og einnig er talað um að lán verði óverðtryggð til frambúðar. Hvað finnst hv. þingmanni um þær tillögur? Fær hún sömu tilfinningu gagnvart þessum tillögum eða finnst henni að þarna sé verið að koma til móts við þá hópa sem hún hefur áhyggjur af?