143. löggjafarþing — 108. fundur,  12. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[23:47]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aftur byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er ekki rétt að segja að allir ráði við skuldbindingar sínar, að þær aðgerðir sem nú er verið að fara í nái til einstaklinga sem allir ráði við skuldbindingar sínar.

Við erum hér með einstaklinga sem tóku lán, hafa ákveðna upphæð í laun á mánuði og höfðu þá, gera sér plön og byggja framtíðarheimili sitt út frá þeim forsendum. Ég vil kalla það forsendubrest þegar þú hefur gert þér framtíðarplön um að borga ákveðið margar prósentur af heildarlaunum þínum í húsnæði en síðan verða áföll á fjármálamarkaði, efnahagshrun eða hvað sem getur gerst, og greiðslur fólks hækka. Allt í einu hefur greiðslubyrðin, prósentan sem fer af ráðstöfunartekjunum þínum í að borga af húsnæði, jafnvel tvöfaldast. Mér finnst rétt að koma til móts við það fólk sem gerði ekki ráð fyrir þessu í skuldbindingum sínum.

Hv. þingmaður talaði einnig um að sérstakar vaxtabætur hefðu ekki komið til hátekjuhópsins. Í þeim gögnum sem ég hef hér, í tölulegum upplýsingum um fyrri aðgerðir, kemur fram að 1% heimila, þ.e. 775 heimili, fékk meira en 15 millj. kr. niðurfærslu og var meðaltal niðurfærslunnar um 26 millj. kr. 95% þessara heimila, sem höfðu um 2 millj. kr. í tekjur á mánuði, fengu sérstakar vaxtabætur frá ríkinu vegna húsnæðisskulda að fjárhæð tæplega 300 millj. kr.