143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[16:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þau viðhorf sem hann kemur fram með í umræðunni. Að því er varðar eldri borgarana sérstaklega, og hann nefndi að það væru ákveðin jafnréttissjónarmið uppi í þeirri umræðu, er rétt að eldri borgarar eins og aðrir hafa á undanförnum árum getað tekið út séreignarsparnað en greitt af honum skatt. Það er ákveðið jafnræði milli allra þeirra sem hafa nýtt sér það úrræði til þessa.

Það getur vel verið að hluti af þeim eldri borgurum hafi verið á vinnumarkaði á því tímabili sem er undir í þessu máli, árin 2009 og 2010, og maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort ekki hafi þá verið eðlilegra að koma til móts við þann hóp og segja: Hérna var verið að setja ákveðið hámark sem menn geta greitt á ári inn á höfuðstólinn og séreignarsparnaðinn, 500 þús. kr., eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, á ári í þrjú ár, 1,5 milljónir á þriggja ára tímabili. Hefði ekki mátt hugsa sér að segja að minnsta kosti til samræmis að þá upphæð mættu menn taka út úr séreignarlífeyrissparnaði til greiðslu á höfuðstól lána jafnvel þótt þeir væru hættir á vinnumarkaði ef þeir ættu það inni og vildu nýta sér það skattlaust eins og frumvarpið gerir ráð fyrir? Hefði ekki verið ákveðið jafnræðissjónarmið fólgið í því líka? Ég tel alla vega að það megi velta því fyrir sér.

Svo má auðvitað líka spyrja sig að því hvort annað sparnaðarform en séreignarsparnaðurinn ætti að gefa sambærilegar heimildir ef fólk hefur sparað í öðru formi á annars konar reikningum en séreignarsparnaðarreikningum. Væri það ekki jafnræði líka að leyfa fólki að nýta sér slík sparnaðarúrræði? Jafnræðissjónarmið eru bersýnilega víða í þessari umræðu.