143. löggjafarþing — 109. fundur,  13. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[20:15]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni, framsögumanni þess máls sem hér er til umræðu, fyrir ræðuna. Hann sagði í ræðu sinni að það hefði verið ætlan núverandi ríkisstjórnar að setja fólkið í forgang. Þetta er svona frasi sem heyrist stundum og menn hljóta þá að velta fyrir sér: Hvaða fólk? Er það allur almenningur í landinu, eru það allir eða eru það tilteknir hópar?

Ef við förum bara yfir nokkur atriði í því sambandi þá var því lofað fyrir kosningarnar 2013, formenn stjórnarflokkanna núverandi lofuðu því að þeir ætluðu að leiðrétta skerðingu elli- og örorkulífeyrisþega aftur í tímann að fullu. Þetta var ítrekað sagt, að fullu aftur í tímann. Hefur verið staðið við það? Nei.

Hverjir nutu leiðréttingarinnar á elli- og örorkulífeyrinum á síðasta ári? Ekki þeir sem voru á lægsta lífeyrinum, nei, þeir voru skildir eftir.

Skattbreytingar sem hér voru gerðar fyrir áramótin, hvernig voru þær útfærðar? Voru það þeir sem eru á lægstu laununum sem nutu þeirra? Nei.

Hvað með veiðigjöldin, afsláttinn af veiðigjöldum til stórútgerðarinnar í landinu, er það allur almenningur og kannski þeir sem verst standa? Nei, heldur betur ekki.

Auðlegðarskatturinn, sem á ekki að framlengja, og þau mál sem eru til umfjöllunar nú, hvað með leigjendur, námsmenn og eldri borgara sem hafa gert athugasemdir við þau frumvörp sem hér liggja fyrir? Hvernig getur fulltrúi ríkisstjórnarinnar komið hér og sagt (Forseti hringir.) að þessi ríkisstjórn hafi fólkið í forgangi?