143. löggjafarþing — 110. fundur,  14. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[09:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þessa frumvarps í þingræðu í gær og lýsti þar mjög jákvæðum viðhorfum til frumvarpsins og til þess yfirleitt að greiða fyrir því að séreignarsparnaður í lífeyriskerfinu rynni til höfuðstólslækkunar lána eða húsnæðissparnaðar og færði ég reyndar rök fyrir því að æskilegt væri að taka þessa grein lífeyrissparnaðar til endurskoðunar til framtíðar með slík markmið í huga.

Hins vegar vantar mikið inn í þessar aðgerðir gagnvart hópum sem standa utan vinnumarkaðar. Þá er á það að líta að þetta frumvarp um séreignarsparnað er þáttur í öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skuldamálum þjóðarinnar sem enn er til umræðu á þinginu. Ég tel að líta verði á aðgerðirnar sem heildstæðan pakka þótt hann sé aðgreinanlegur í einstaka þætti. Þar er sumt gott, annað gagnrýni vert og enn annað óljóst í þessum aðgerðum og get ég því ekki stutt þær lagabreytingar og kýs að sitja hjá af þeim sökum.