143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:44]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða hérna eitt stærsta málið á þessu kjörtímabili og það eru örfáir í salnum. Eins og hv. þm. Brynhildur S. Björnsdóttir benti á er enginn sjálfstæðismaður hér fyrir utan hv. þm. Pétur H. Blöndal. Það finnst mér mjög merkilegt og ætla að koma aðeins betur inn á það síðar.

Efnahagshrun heillar þjóðar er óréttlátt. Stjórnvöld sem áttu að standa vaktina báru ábyrgð á því með athafnaleysi sínu að hér sigldi allt í strand. Fólk sem í sakleysi sínu og góðri trú vissi ekki annað en að hér væri allt í lagi sat uppi með tjón. Það á við um flesta landsmenn en þó eru örugglega einhverjir sem hafa grætt á hruninu vegna þess að efnahagshrun er óréttlátt og það verður ekki svo auðveldlega leiðrétt. Það er hægt að milda áhrifin og það tel ég að síðasta ríkisstjórn hafi gert, en við leiðréttum ekki hrun. Þess vegna er það grunnskylda og helsta verkefni stjórnvalda á hverjum tíma að koma í veg fyrir efnahagshrun. Ef menn eru ekki tilbúnir í það starf eiga þeir ekki að taka að sér ráðherraembætti, það er bara þannig.

Margt var gert og það er listað ágætlega upp í skýrslunni sem kom út þegar stjórnvöld kynntu aðgerðirnar. Þá fékk maður ágætisyfirlit yfir það sem hefur þó þegar verið gert. Mér telst til þegar allt er talið að þær aðgerðir slagi upp í 300 milljarða, ef við tökum sérstöku vaxtaniðurgreiðsluna, 110%-leiðina, sérstaka skuldaaðlögun, greiðslujöfnun einstaklinga hjá Íbúðalánasjóði og ef við tökum bílalánin inn í. Mjög mörg heimili fengu leiðréttingu á bílalánum og enduðu með lánasamninga sem voru nokkuð hagstæðir, á lágum vöxtum. Síðan hafa bankarnir farið í alls konar aðgerðir, ég hef ekki yfirlit yfir þær upphæðir, en þegar allt er talið saman erum við að tala um kannski 250 milljarða í þessu sambandi. Fyrri ríkisstjórn fór því í umtalsverðar aðgerðir auk bankanna. Mér finnst eftirfarandi spurning mjög áleitin: Hvenær er komið nóg? Það er erfitt að standa í ræðustól og segja: Nú skulum við ekki halda áfram að greiða niður skuldir heimilanna eða koma til móts við heimilin með þeim hætti sem lagt er til í þessu frumvarpi, því hver vill ekki hjálpa heimilunum?

Ég er eiginlega viss um að þetta er ekki besta leiðin. Þetta er gríðarlega dýr aðgerð og eins og hefur komið fram eru það mjög lágar upphæðir sem hvert og eitt heimili fær, þegar búið er að dreifa upphæðinni á þessi 100 þús. heimili eða hvað þau eru nú mörg. Örfá heimili eiga rétt á hámarkinu vegna þess að allar fyrri leiðréttingar dragast frá, fyrir utan þær sem voru á vegum bankanna. Aðgerðir viðskiptabankanna, ekki Íbúðalánasjóðs, fyrir viðskiptamenn sína eru ekki teknar inn í þetta. Sumir munu svo sem græða en mér finnst það eiginlega sýna enn og aftur að ekki er hægt að fara í réttlátar aðgerðir til að leiðrétta hrunið, það er mjög erfitt.

Það voru margir kjósendur, að minnsta kosti 25% kjósenda, sem töldu að ekki væri komið nóg, að aðgerðir fyrri ríkisstjórnar og lánafyrirtækja hefðu ekki dugað til. Þess vegna á nú að dreifa 80 milljörðum á fjórum árum til heimila með verðtryggð lán á frekar tilviljanakenndan hátt.

Mig langar aðeins að koma inn á það að íslensk heimili eru og voru og hafa alltaf verið mjög skuldsett. Strax upp úr aldamótum var fjallað um það á Alþingi og menn lýstu yfir áhyggjum af því að íslensk heimili væru mjög skuldsett. Þetta var kannski upp úr árinu 2000. Ef skoðaðar voru tölur OECD-ríkjanna voru íslensk heimili með þeim skuldsettustu. Og það átti bara eftir að aukast. Þegar hrunið varð voru íslensk heimili svo skuldsett að í raun blasti við fjöldagjaldþrot. Það varð því að grípa til aðgerða. Mér finnst það reyndar umhugsunarefni af hverju íslensk heimili eru svona skuldsett. Af hverju voru svona mörg bílalán? Það er kannski bara umræða sem þarf að fara fram einhvers staðar annars staðar, en mér finnst líka að við Íslendingar þurfum að líta í eigin barm og skoða það hvort við séum kannski að meðaltali of værukær þegar kemur að fjármálum.

Það varð hálfgert æði og einkennilegt andrúmsloft hér á árunum fyrir hrun. Bankarnir voru gríðarlega aggressífir í sinni markaðssetningu. Ég man eftir að auglýst voru hagstæð bílalán. Bílalán eru sjaldnast hagstæð eða bílakaup yfir höfuð. Það var reyndar bara tilviljun sem olli því að bílalán urðu hagstæð vegna þess að þau voru mörg ólögleg og þar af leiðandi voru þau leiðrétt síðar. En við fórum heldur geyst, það verður að segjast eins og er.

Það hefur einnig verið rík tilhneiging hjá okkur að taka lán til 40 ára, það eru tiltölulega löng fasteignalán sem eru til 40 ára, 90% veðhlutfall jafnvel á jöfnum afborgunum. Þegar maður tekur slíkt lán er í raun verið að létta greiðslubyrðina í hverjum mánuði en lánið verður miklu dýrara þegar upp er staðið. Lengi vel eignast maður ekkert í íbúðinni vegna þess að maður er að bara að greiða af vöxtum. Með því að taka svona lán, sem nú er reyndar talað um að banna, má segja að maður sé í raun að kaupa sér leigurétt. Ef staðið er undir afborgunum er fólk að því leytinu betur statt en þeir sem eru á leigumarkaði því að þeir vita aldrei hvenær þeim verður hent út á götuna. En það þarf ekki mikið út af að bregða, það þarf ekki að verða mikil verðbólga eða verðfall á fasteignamarkaði til að fólk sem tekur svona lán standi frammi fyrir því að eiga minna í húsinu en það skuldar.

Við í Bjartri framtíð höfum áhyggjur af því að tekjuöflun ríkissjóðs varðandi þessa aðgerð sé ekki nógu örugg. Við ætlum að setja 20 milljarða á ári af skatttekjum í hana og vissulega vonumst við til að bankaskatturinn muni skila góðum pening í ríkissjóð á næstu árum. En ef eitthvað klikkar, ef bankaskatturinn verður minni eftir þrjú ár og verður kannski ekki nema 10 milljarðar, hvar menn ætli þá að taka 10 milljarða sem upp á vantar? Við í Bjartri framtíð höfum reynt að fá svör við því.

Eins og ég skil þetta hafa stjórnvöld sagt: Þessir 20 milljarðar á hverju ári eru forgangsmál. Við munum setja 20 milljarða af fjárlögum hvers árs í aðgerðina. En ef bankaskatturinn verður lægri, hvar á þá að fá milljarðana sem upp á vantar? Ég hef ekki fengið svar við því. Hvar á að skera niður? Ég hef ekki upplifað það að víða sé hægt að skera niður. Það má vel vera að stjórnvöld eigi svar við því en ég mundi þá vilja fá það svar.

Það er líka mikilvægt að halda því til haga að þegar rætt var um þetta kosningaloforð í kosningabaráttunni áttu peningarnir að koma frá kröfuhöfum og hrægömmum, með viðkomu í ríkissjóði eins og það var orðað. Það var talað svolítið eins og peningarnir kæmu úr einhverju öðru hagkerfi eða jafnvel frá annarri plánetu. En það er ekki þannig og í dag stöndum við frammi fyrir því að þessir 20 milljarðar koma úr ríkissjóði. Þannig er það og mér finnst mjög mikilvægt að við séum meðvituð um það.

Mér finnst líka áhugavert og mikilvægt að við höfum í huga að þessi útdeiling á almannafé dreifist ójafnt yfir landið. Eðli málsins samkvæmt fær suðvesturhornið og höfuðborgarsvæðið mest vegna þess að þar voru hæstu lánin tekin og þar er húsnæðisverð hæst. En á því landsvæði, og sérstaklega í Reykjavík, hækkar íbúðaverð meira en annars staðar. Ég er ekki viss um að t.d. íbúðaverð á Djúpavogi muni hækka, þar varð raunverulegur forsendubrestur þegar fyrirtækið Vísir ákvað að flytja starfsemi sína úr bænum.

Þeir sem munu fá þessar niðurgreiðslur eru að mestu leyti þeir sem búa á suðvesturhorninu. Mér finnst í rauninni alveg hægt að tala um tilfærslu á fé frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Á mbl.is í dag er frétt sem hefur yfirskriftina: „Allar líkur á að íbúðaverð hækki á þessu ári“. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Staðan á íbúðamarkaði markar endurreisn en hann hefur náð sér næstum að fullu frá 2008 samkvæmt skýrslu Reykjavík Economics sem Íslandsbanki lét vinna fyrir sig. […] Allar líkur til þess að íbúðaverð hækki meira á þessu ári.“

Þetta eru góðar fréttir, þetta hlýtur að leysa vanda mjög margra. En þá velti ég fyrir mér: Eigum við að niðurgreiða úr okkar sameiginlega sjóði lán hjá heimilum kannski í Vesturbænum sem búa í fasteign sem mun aldrei gera annað en að hækka í verði? Á það fólk í einhverjum vandræðum? Er það réttlætanlegt? Höfum við efni á því? Þessu þarf að svara.

Ég vil líka segja að afstaða Sjálfstæðisflokksins í þessu máli kemur mér á óvart. Ég furða mig á því að þingmenn sem tala um aga í ríkisfjármálum, ábyrgð einstaklingsins og minni ríkisafskipti skuli veita þessu máli stuðning. Ég vænti þess að þegar stjórnmálaflokkar leggja fram svona stórt mál sé það gert af einlægri sannfæringu fyrir því að aðgerðin sé skynsamleg og að þetta sé raunverulega besta leiðin til að verja 80 milljörðum. Þess vegna undrast ég að þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli ekki freista þess að sannfæra mig og annað efasemdafólk um ágæti aðgerðanna, en þeir hafa varla sést hér í ræðustól fyrir utan hv. þm. Pétur H. Blöndal sem er á móti málinu.

Einhverjir hafa komið í andsvör, þar af einn sem er á móti málinu. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að ekki einn einasti sjálfstæðismaður hefur flutt ræðu um þetta niðurfellingarfrumvarp fyrir utan framsögumann sem auðvitað pínist til að koma í ræðustól. Ég ætla ekki að gefa honum annað en að hann tali af sannfæringu í þessu máli en vildi gjarnan sjá fleiri. Ég trúi því að minnsta kosti ekki að flokkur fari í ríkisstjórnarsamstarf nema vera sannfærður um ágæti kosningaloforðsins sem á að efna og sé tilbúinn að tala fyrir því.

Að lokum vil ég segja að mér finnst ekki ábyrgt að velta reikningnum af hruninu inn í framtíðina í meira mæli en gert hefur verið. Mér finnst þetta óábyrgt. Það erum við sem tókum lánin, það erum við sem áttum að standa vaktina þegar hér varð efnahagshrun og við getum ekki sent reikninginn til barna okkar. Það er fullkomlega óábyrgt, þetta er á okkar ábyrgð.

Um daginn var ég heima hjá mér að mála, nýbúin að laga þakið. Ég bý í sjálfu sér í of stóru húsi, ég gæti búið í minna og ódýrara húsnæði en ég vil hafa garð og allt í lagi með það. Þegar ég er þarna að mála eftir dýrar framkvæmdir velti ég fyrir mér: Eiga aðrir skattgreiðendur að greiða fyrir það að ég ákvað að búa í litlu einbýlishúsi? Er eitthvert vit í því? Verð ég ekki að bera ábyrgð á eigin fjármálum og eigin húsnæðisláni? Þá vil ég að því sé haldið til haga að það var nauðsynlegt að fara í aðgerðir eins og 110%-leiðina, að lengja í lánum, að koma upp embætti umboðsmanns skuldara. Í því sambandi vil ég segja að það er merkilegt að hlusta á stjórnmálaflokka tala um heimilin eins og þau hafi alltaf verið helsta áhugamálið því að 14 sinnum var lagt fram frumvarp á þingi um greiðsluaðlögun, fyrst árið 1992, en það fór ekki í gegn fyrr en eftir hrun. Þá komu allir stjórnmálaflokkarnir að, þrjú frumvörp lögð fram í einni og sömu vikunni liggur við.

Þetta er einkenni á stjórnmálum hér, við reddum hlutunum eftir á. Ef þessi lög hefðu verið komin í gagnið, búið að slípa þau til, hefðum við verið í mun betri stöðu. En þegar við höfum sett kannski 250 milljarða í aðstoð til heimilanna þurfum við að skoða hvaða hópar sitja eftir og spyrja: Hvernig er staða hópsins sem tók lán í Íslandsbanka, gengistryggð lán sem voru lögleg, á sá hópur í vanda? Þarf ekki að skoða hvort lánsveðshópurinn svokallaði þurfi að fá úrlausn sinna mála? Þyrfti kannski að skoða stöðuna hjá þeim sem keyptu sína fyrstu fasteign rétt á árunum fyrir hrun? Er hægt að koma til móts við þá? Gleymum því ekki að þeir sem keyptu sér íbúðarhúsnæði jafnvel fyrir aldamótin og seldu á árunum rétt fyrir hrun stórgræddu. Þeir keyptu sér kannski nýja íbúð eftir það og fá núna niðurfellingu á sín lán, en þeir græddu vegna þess að húsnæðisverð hækkaði mikið á þessu árabili.

Það eru hópar þarna úti, fólk sem er í greiðsluvanda og ég tala ekki um leigjendur, það er hópurinn sem mér finnst að við eigum að einblína á. Svona tilviljunarkennd aðgerð, meðaltalsupphæðin er eitthvað um rúmlega 1 milljón á fjölskyldu, hefur ekkert að segja fyrir hvern og einn en þetta eru gríðarlegir peningar fyrir ríkissjóð. Við skulum átta okkur á því að þeim peningum verður ekki varið í annað. Þá finnst mér við ekki geta kvartað yfir því að það vanti pening í framhaldsskólana, háskólana, heilbrigðiskerfið, samgöngur, fjarskipti á landsbyggðinni, aukið menningarstarf og hvað það nú er. Ég er ekkert viss um að menn eigi eftir að koma auðveldlega saman fjárlögum ef þeir þurfa um leið alltaf að taka tillit til þeirra 20 milljarða sem verða að fara í þessa aðgerð.

Ég hvet þingmenn til að skoða þetta mál, sérstaklega þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Ég verð að segja að ég sé ekki sannfæringu hjá þeim en ég bíð eftir því, það er enn tækifæri til að koma hér í ræður og reyna að snúa mér. Ég hvet þá til að skoða málið mjög vel þegar þeir greiða atkvæði. Ég get skilið aðgerðina um séreignarlífeyrissparnaðinn, mér finnst hún að mörgu leyti skynsamlegri þótt hún sé ekki gallalaus, en þessi aðgerð finnst mér galin.