143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:16]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ef mér skjátlast ekki hef ég 40 mínútur til umráða sem er ekki langur tími til að fara yfir þetta stóra og góða mál. Þó mun ég reyna að gera það á skemmri tíma því að öll viljum við ljúka þessu sem fyrst og sjá frumvarpið verða að lögum sem fyrst svo að hægt verði að vinna eftir þeim lögum sem allra fyrst. Öll, segi ég, og á við okkur sem höfum barist fyrir þessu nú í fimm ár. Ég ætla að byrja aðeins á örstuttri sögulegri upprifjun, hvers vegna og hvernig þetta kom allt til, til að setja hlutina í samhengi.

Við fall íslensku bankanna urðu eignir þeirra verðlitlar, raunar mjög verðlitlar. Kröfur á hina föllnu banka voru seldar í upphafi á kannski 2% til 3% eða 5% af nafnvirði. Það er vegna þess að skuldir Íslendinga, heimila og fyrirtækja, í þessum bönkum, sem eru eignir bankanna, voru lítils metnar, taldar lítils virði, höfðu með öðrum orðum verið afskrifaðar að miklu leyti. Það átti meðal annars við um íslensk fasteignalán sem á þessum tíma voru talin undirmálslán í gjaldþrota landi, þannig var talað um Ísland og íslensku fasteignalánin í útlöndum. Í Bandaríkjunum voru fasteignalánasöfn sem skilgreind voru sem undirmálslán oft seld á kannski 10% af nafnvirði. Svigrúmið til að færa lánin niður var því mikið, svigrúmið til að nýta þá staðreynd að raunar var búið að afskrifa Ísland og skuldir íslenskra heimila að miklu leyti.

Við framsóknarmenn börðumst fyrir því eins og við mögulega gátum að þetta svigrúm yrði nýtt. Við bentum á það, með ótal rökum, að nauðsynlegt væri að nýta þetta tækifæri í þágu heimilanna. Það var ekki gert. Bönkunum var skipt upp með hætti sem við töldum mjög óráðlegan og enn erum við að fást við afleiðingar þess hvernig að því var staðið. Engu að síður voru lánasöfnin, og þar með talið fasteignalánasöfn, færð yfir, á milli föllnu fjármálafyrirtækjanna og þeirra nýju, og svo að miklu leyti reyndar yfir í Íbúðalánasjóð, með verulegum afslætti, þ.e. það var búið að afskrifa töluverðan hluta af skuldum íslenskra heimila.

Við töldum þá sjálfsagt að heimilin fengju, að minnsta kosti að hluta til, að njóta þessarar afskriftar og það mundi gera þau betur í stakk búin til að standa undir restinni í stað þess að fyrirtæki sem höfðu keypt kröfur á heimili í landinu með afslætti héldu áfram að rukka upp í topp 100%, láta heimilin borga 100% fyrir það sem hafði verið keypt á tugprósenta afslætti. Ekki var fallist á tillögur okkar, hvorki á þessu stigi né fyrr, en við héldum áfram að leita lausna.

Svo sáu menn að í uppgjöri efnahagshrunsins, með skuldaskilum hinna föllnu fjármálafyrirtækja, gæfist enn eitt tækifærið til að leyfa heimilunum að njóta þess sem þau áttu í raun inni og bæta um leið stöðu almennings á Íslandi og snúa efnahagsþróun í landinu til betri vegar, komast út úr kreppunni vegna þess að ekkert land kemst út úr kreppu á meðan heimilin, grunnstoðir samfélagsins, eru föst í skuldafjötrum.

Það liggur fyrir, og er reyndar ekki umdeilt lengur, sem einfaldar þessa umræðu, að það þarf að skapast töluvert svigrúm við afléttingu hafta þegar þessi föllnu fjármálafyrirtæki verða gerð upp. Meira að segja þingmenn stjórnarandstöðunnar eru nú farnir að ýta undir væntingarnar. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar telur til dæmis ekki lengur að 300 milljarða svigrúm sé nóg, það muni þurfa að verða meira og sannast þá það sem við héldum fram að hvert sem svigrúmið yrði á endanum mundi leiðrétting á skuldum heimilanna rúmast vel innan þeirra marka.

Nú er hins vegar enn beðið eftir því að kröfuhafar hinna föllnu fjármálafyrirtækja leggi fram, eða fulltrúar þeirra, tillögur að nauðasamningum sem veita þetta svigrúm og gera mönnum þar með kleift að aflétta höftum. En við látum það ekki stoppa okkur. Það er auðvelt í millitíðinni — vissulega með ríkið sem millilið — að hlutast til um það að þessi föllnu fjármálafyrirtæki leggi sitt af mörkun þó að þau hafi verið skattfrjáls allt síðasta kjörtímabil. Það þýðir jú að svigrúmið, þegar þar að kemur, þarf kannski að vera örlítið minna. Með öðrum orðum þá er sá skattur sem nú er lagður á fyrirtæki í slitameðferð, slitabúin, er liður í svigrúminu vegna þess að hann hleypir lofti úr hinni uppblásnu loftbólu sveitabúanna og því ekki úr vegi, raunar mjög við hæfi og viðeigandi, að ræða þetta í sömu andrá.

Nú heyrir maður reyndar oft það viðhorf hjá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar að þeir skattar sem ekki eru lagðir á, allar hugmyndir sem einhver hefur einhvern tíma fengið um skattlagningu sem ekki eru nýttar, feli í sér gjöf ríkisins eða almennings til þess sem hefði verið hægt að skattleggja. Þá hlýtur maður að velta fyrir sér hvað það segi um þá ákvörðun síðustu ríkisstjórnar að sleppa slitabúunum algerlega við skattlagningu. Þýðir það að síðasta ríkisstjórn hafi gefið slitabúum bankanna, kröfuhöfunum, 150 milljarða á kjörtímabilinu? Ef menn ætla að líta svo á að skattar sem hægt er að leggja á en ekki eru lagðir á séu gjöf þá gerðu menn það. En í öllu falli sjáum við að með þessari skattlagningu eru þær aðgerðir sem hér eru til umræðu að fullu fjármagnaðar og þetta er fjármagn sem hefði hvort eð er þurft að hleypa út úr loftbólunni, minnkar vandann stig af stigi, færir okkur nær því að aflétta höftum og gerir slitabúunum, hinum föllnu fjármálafyrirtækjum, kleift að taka þátt í uppbyggingu samfélagsins og bæta að einhverju leyti fyrir það tjón sem framganga fjármálafyrirtækjanna fyrir hrun olli.

Það urðu margir fyrir tjóni vegna framgöngu þessara fjármálafyrirtækja, ekki hvað síst þeir sem voru með verðtryggð fasteignalán. Það sem er alveg sérstaklega sláandi við tjón þess fólks er að fyrirtækin sem höfðu veitt lánið höfðu með framferði sínu áhrif á upphæð lánsins með því að ýta undir verðbólgu og með falli fjármálafyrirtækjanna og hruni gjaldmiðilsins hækkuðu auðvitað lánin. Þeir sem urðu til þess að skaðinn varð geta nú tekið þátt í að bæta fyrir hann. Það má með öðrum orðum segja sem svo að íslensk heimili eigi kröfu á þessi föllnu fjármálafyrirtæki og þá kröfu eiga heimilin að fá að innheimta nú við skuldaskil þeirra.

Víða erlendis og raunar í löndum allt í kringum okkur, bæði í Norður-Ameríku og Evrópu, hafa sérstakar sektir, gríðarlega háar sektir, verið lagðar á fjármálafyrirtæki vegna þess hvernig þau stóðu að málum í aðdraganda hinnar alþjóðlegu fjármálakrísu. Hér var ekkert slíkt gert. Raunar var, eins og komið hefur fram, farið á svig við nýsett neyðarlög til að reyna að friðmælast við kröfuhafa bankanna í upphafi. En nú, þegar kemur að því að ljúka þessu uppgjöri, gefst tækifæri til að ná fram réttlæti fyrir gríðarlega stóran hóp í samfélaginu sem hefur legið óbættur hjá garði í fimm ár.

Þá er undarlegt, svo ekki sé meira sagt, að heyra menn leyfa sér það, menn sem voru hér við stjórnvölinn í fjögur ár, menn sem jafnvel tóku að sér að leiða ríkisstjórn tímabundið gegn loforði um að ráðast í aðgerðir sambærilegar þeim sem nú er verið að ráðast í og sviku það, að slíkt fólk skuli leyfa sér að koma hér upp nú og gagnrýna þessar aðgerðir á þeim forsendum að ekki sé verið að gera eitthvað fyrir aðra hópa. Jú, það þarf að passa upp á alla hópa í samfélaginu og það hefur þessi ríkisstjórn leitast við að gera.

Framlög til félagsmála eru meiri en þau hafa nokkurn tíma verið og búið að afnema þær skerðingar sem síðasta ríkisstjórn kom á hjá eldri borgurum og öryrkjum. Það er búið að auka framlög til heilbrigðisþjónustu. Með nýjum tillögum að bættu húsnæðiskerfi er verið að koma til móts við leigjendur, bæta stöðu þeirra til mikilla muna, og húsnæðissamvinnufélög.

En þegar á að koma að því, loksins eftir fimm ár, að koma til móts við fólk sem á þessar réttmætu kröfur en hefur verið vanrækt allan þann tíma þá leyfa menn sér að ráðast gegn því fólki og þeirri réttlátu kröfu sem það á á þeim forsendum að það eigi ekkert skilið ef það getur haldið áfram að borga. Ef það getur verið í tvöfaldri vinnu og skrapað saman til að eiga fyrir afborgunum þá sé ekki réttlætanlegt að gera neitt fyrir fólk. Eingöngu þeir sem komast í þrot eigi rétt á stuðningi. Þetta eru mjög hættuleg skilaboð og afleiðingarnar af þessum skilaboðum sáum við á síðasta kjörtímabili. Þessir neikvæðu hvatar, þegar eingöngu er komið til móts við þá sem komast í þrot og fólki er refsað fyrir að reyna að standa í skilum. Það er ekki hægt að reikna í krónum og aurum, í milljörðum eða tugum milljarða, hver sá skaði var en hann var gríðarlega mikill og átti stóran þátt í að viðhalda þeirri stöðnun sem hér ríkti.

Með þessum tillögum og á mörgum öðrum sviðum er verið að innleiða jákvæða hvata og áhrifin af því sjáum við nú þegar. Við sjáum hagvöxt rjúka upp þegar síðasta haust með nýrri stefnu, jákvæðum hvötum. Við sjáum fjárfestingu vera að fara af stað. Við sjáum verðbólgu allt í einu vera komna niður í rúm 2%, undir viðmiðunarmörkum Seðlabankans, í annað skiptið frá upphafi og í fyrsta skipti sem hún helst stöðug í nokkra mánuði. Og við sjáum að atvinnuleysi heldur áfram að minnka. Og með þessari aðgerð getum við haldið uppbyggingunni áfram. Heimilin geta orðið betri og virkari þátttakendur í uppbyggingu íslensks efnahagslífs og íslensks samfélags.

Erlendir hagfræðingar, nóbelsverðlaunahagfræðingar, hafa mikið skrifað um það, eftir að fjármálakrísan hófst, að ef menn gleymi að huga að grunnstoð samfélagsins, heimilunum og skuldum þeirra, þá gleymi þeir öllu hinu. Ef heimilin eru ekki í stakk búin til að vera virkir þátttakendur í efnahagslífinu þá virkar ekkert annað. Þess vegna er þetta ekki aðeins réttlætisaðgerð, þetta er líka mikilvæg efnahagsleg aðgerð. Og hverjum nýtist aðgerðin? Jú, hún nýtist þorra heimila á Íslandi. Þegar saman koma þessar tvær leiðir, sem haldast í hendur, þá er ljóst að fólk getur á nokkrum árum leiðrétt lán sín sem nemur öllu sem hægt er að kalla ófyrirséða verðbólgu sem varð vegna efnahagshrunsins, þ.e. þeirri verðbólgu sem hægt er að segja að fjármálafyrirtækin, lánveitendurnir, hafi valdið með framferði sínu; með þessum leiðréttingum nú er hægt að ná því öllu til baka.

Hvernig er dreifingin á þessum aðgerðum? Jú, megnið af því fjármagni sem í þetta fer nýtist millitekjufólki og fólki með lægri millitekjur, langmest. Hvernig er það í samanburði við fyrri aðgerðir? 110%-leiðin og aðgerðir sem ráðist var í á sama tíma kostuðu um 45 milljarða kr. Næstum því helmingurinn af því, helmingurinn af þeim 45 milljörðum, fór til 1% íslenskra heimila; 1% heimilanna fékk helminginn, eða því sem næst, af þessari leiðréttingu eða lækkun lána. Í þessu 1% fékk hvert heimili að meðaltali 26 millj. kr. í niðurfærslu. Það voru dæmi um heimili sem fengu yfir 100 millj. kr. í niðurfærslu á lánum sínum og fólkið sem stóð fyrir þessu leyfir sér að koma hingað upp í dag og undanfarna daga og mæta í fjölmiðla og reyna með útúrsnúningum og hreinum rangfærslum að halda því fram að sú aðgerð sem hér er verið að kynna feli í sér misrétti, að það sé verið að verðlauna þá efnameiri. Fyrir slíkum fráleitum fullyrðingum er engin innstæða. Langmest af því sem í þetta fer fer til fólks með millitekjur og lægri millitekjur.

Svo segja menn: Jafnvel þó að þeir klári þetta kemur þá ekki bara verðbólgan aftur og étur þetta allt upp? Þetta er tengt við þá umræðu að allt geti farið á versta veg ef lán heimilanna verða leiðrétt. Mér hefur alltaf þótt það afskaplega undarlegt viðhorf að það þurfi að halda heimilunum í skuldafangelsi, ekki hleypa þeim út, vegna þess að þá fara menn bara að eyða peningum og þá komi aftur verðbólga og allt fari í vitleysu. Til að halda stöðugleikanum þurfi með öðrum orðum að halda heimilunum í fangelsi. Þetta er stefna sem gengur ekki upp þegar það er hlutverk stjórnmálamanna að vinna fyrir heimilin.

Talandi um fullyrðingar um að verðbólgan éti þetta upp, það er ekki rétt vegna þess að leiðréttingin er verðtryggð á meðan menn eru með verðtryggt fyrirkomulag. Þetta er ágætisáminning um mikilvægi þess að við vinnum okkur út úr því og ég fagna því sem mér finnst ég hafa skynjað sem er aukinn stuðningur í stjórnarandstöðunni við þá vinnu. En ef verðbólga fer aftur af stað, sem við vonum að sjálfsögðu að verði ekki og gerum ráð fyrir að verði takmörkuð á meðan þessi ríkisstjórn situr, en ef það gerist þá er þeim mun mikilvægara að vera búin að leiðrétta lánin vegna þess að ella mundi leiðréttingarhlutinn hækka líka með aukinni verðbólgu. Það breytir ekki því að við viljum að sjálfsögðu koma okkur út úr þessu óheilbrigða kerfi, kerfi sem skiptir ekki áhættunni, sem óneitanlega er alltaf fyrir hendi, milli lánveitenda og lántaka. En það er ekki annað að heyra á gagnrýnendum þessarar tillögu en að þeir telji slíkt kerfi bara eðlilegt, að eignir séu tryggðar upp í topp, sama hvað á gengur, eignir megi ekki rýrna, en sá sem skuldar, heimilin í landinu, venjulegt fólk með millitekjur eða lægri millitekjur, eigi að bera kostnaðinn af því að tryggja eignirnar.

Þegar tekin var ákvörðun um að verja innstæður í bönkunum við efnahagshrunið, verja eignirnar, þá komu menn ekki og sögðu: En hvað með alla hina hópana? Nú, þegar á að koma til móts við þá sem skulda, þá mæta menn og segja: Það má ekki gera neitt fyrir þennan hóp án þess að huga að hinum hópunum. Þeir sem töldu ekkert eðlilegra en að verja innstæðurnar telja ofrausn að koma til móts við þá sem skulda, en skuldir, eins og menn þekkja í nútímafjármálakerfi, eru hin hliðin á eignunum.

Virðulegi forseti. Það er mikið fagnaðarefni og tilhlökkunarefni að sjá þetta nú loks verða að veruleika, að sjá að það reyndist rétt, sem við héldum fram, að það kostaði enga 200 milljarða eða 250 milljarða eða 300, eða hvað menn voru komnir upp í, að færa niður lán heimilanna. Okkur var iðulega legið á hálsi fyrir að ráðast í aðgerðir sem mundu kosta 200 eða 250 milljarða. Nei, það var ekki það dýrt og af þeim ástæðum sem við bentum á, menn gleymdu nefnilega alltaf að líta á jöfnuna alla. Menn gleymdu því líka að það kostar að gera ekki neitt. Það kostar að skilja heimilin eftir í skuldafangelsi.

Nú þegar við stígum þetta skref til að losa íslensk heimili úr fjötrum og fögnum því um leið að árangur er að nást á alla helstu mælikvarða hagþróunar þá hljótum við að vilja að þetta hafi það yfirbragð að við ætlum að vinna hlutina saman, halda áfram að vinna landið út úr efnahagsþvingunum í sameiningu. Menn hljóta að segja þetta gott af tilraunum til að ala á tortryggni, ala á tilfinningunni um að einn sé að fá meira en annar og sameinast um að vinna fyrir alla.

Nú er verið að gera þetta til að koma til móts við mjög stóran vanræktan hóp. Við munum halda áfram að vinna fyrir aðra hópa í samfélaginu, leigjendur, sjúklinga, alla hópa samfélagsins, og vonumst til þess að stjórnarandstaðan sé reiðubúin að fara í þá vinnu með okkur í stað þess að reka stefnu sem gengur út á það að ef hætta sé á að einhver fái meira en hann nauðsynlega þarf til að lifa af þá sé betra að allir svelti. Á slíkri stefnu er ekki hægt að byggja upp framsækið samfélag.

Innleiðum jákvæða hvata byggða á réttlæti. Komum loks til móts við þá sem hafa verið vanræktir. Gætum hagsmuna allra hópa samfélagsins og viðurkennum að hér sé verið að klára mál sem hefði átt að klára fyrir fimm árum, það sé verið að klára uppgjör efnahagshrunsins og marka upphafið að uppbyggingarstarfi til langrar framtíðar, uppbyggingarstarfi sem öll íslensk heimili geta tekið þátt í. Það að heimilin séu þátttakendur í uppbyggingunni er forsenda árangurs.

Þetta eru mikil tímamót, virðulegur forseti. Það er ástæða er til að gleðjast og vera bjartsýnn á framtíð landsins.