143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:35]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessar hugleiðingar. Ég vísa til fyrstu fyrirspurnarinnar um það hvort hugsanlega væri skynsamlegra að aðrir en viðkomandi fagráðherrar og þá viðkomandi fagnefndir fjölluðu um málin. Því má hv. þingmaður trúa að ég mundi ekki gera athugasemdir við að aðrir ráðherrar flyttu þetta frumvarp, það segi ég hvað varðar þetta mál en varpa þó engri ábyrgð af mér í því. En mér finnst þetta vera hluti af því sem við þurfum að skoða, mér finnst þetta vera hluti af því sem við þurfum að fara yfir.

Fagráðherrann er ekki endilega hluti af þeirri löggjöf sem hv. þingmaður lýsti. Ég geri því engar athugasemdir við að það verði skoðað. Ég held hins vegar að í þessu tilviki komi ekkert annað til greina en að vísa málinu til hv. umhverfis- og samgöngunefndar í samræmi við það sem gert hefur verið og í samræmi við það hvaða fagráðherra flytur málið og líka á grundvelli þess að þetta er mál sem talið er ógna samgöngum og öryggi í samgöngum verulega.

Varðandi meðalhófið þá tel ég að við höfum farið mjög nákvæmlega yfir það með okkar færustu sérfræðingum til að tryggja að að því sé gætt. Hv. þingmaður spyr um þjóðhagslega hagsmuni og auðvitað er búið að reikna það út. Ég fór hér með einstakar tölur og upplýsingar sem ætlað er að varpa ljósi á það og kemur fram í greinargerðinni.

Það er hins vegar alltaf matskennt, þess vegna er löggjafarþingið kallað saman og það kemur fram í lögunum, hvenær slík ákvörðun er tekin. Það er staðreynd málsins að það getur verið matskennt að vega og meta almannahagsmuni. Í þessu tilviki metum við heildarhagsmunina meiri en þá hagsmuni sem um er að ræða varðandi það að þetta yrði látið óáreitt en það er matskennt og menn geta haft misjafnar skoðanir á því. Skoðun ríkisstjórnarinnar er skýr, mat okkar er það að grípa verði til þessara aðgerða, en ég tek undir það með hv. þingmanni að enginn heilagur sannleikur er í því.