143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er matskennt, ég er sammála því, og þess vegna kom það viðhorf fram hjá mér, til dæmis þegar umræða var um yfirvofandi verkfall flugstjóra fyrir ekki löngu, að alltaf verði að skoða þær aðstæður sem uppi eru í hverju máli fyrir sig. Lagasetning í einu tilfelli réttlætir ekki eða er ekki fordæmi fyrir lagasetningu á öðru sviði í annan tíma vegna þess að aðstæður geta verið mismunandi og þetta þarf að meta í hverju tilfelli fyrir sig. Ég veit að í umræðunni þá, og verður ugglaust líka núna, var vísað til lagasetningar hér fyrr á árum, en þetta finnst mér að alltaf verði að hafa í huga, þ.e. samhengið sem við er að glíma hverju sinni, menn verða að leggja sjálfstætt mat á hverja deilu og hvert tilfelli fyrir sig.

Í greinargerð með frumvarpinu finnst mér í raun og veru skorta á að slíkt mat sé reitt fram. Ég tel mikilvægt að þingnefndin reyni að reiða það fram. Mér finnst líka skorta umfjöllun um dóma eða niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu í málum af þessum toga, sem er innlegg í umræðuna.

Að því er varðar formið er ég nú fyrst og fremst að velta þessu upp vegna þess að mér finnst að það geti verið betra fyrir málið sjálft að það sé sá ráðherra sem fer með vinnumarkaðsmál sem fjalli um það. Það viðhorf er stutt af því sem hæstv. ráðherra sagði hér um að hún hefði velt upp hugmyndum um að breyta hlutverki ríkissáttasemjara. Það er klárlega vinnuréttindamál. Það styður það að þetta er vinnuréttar- og vinnumarkaðsaðgerð í sjálfu sér og þess vegna fagna ég því að hæstv. félagsmálaráðherra er hér og vona að hún verði hér við umræðuna. Ég hef að minnst kosti hug á að beina spurningum til hennar í þessu samhengi af því að þetta snýr að þessum málum.

Hið sama á við um þingnefndina. Ég tel ekkert sjálfgefið að þingnefnd sem fer með samgönguáætlun eigi að fjalla um vinnuréttarmál í þessu samhengi. (Forseti hringir.) Þetta er fyrst og fremst ábending og ég tel að umhverfis- og samgöngunefnd, ef hún fær málið, geti óskað eftir einhvers konar umsögn frá velferðarnefnd ef því er að skipta.