143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Með mikilli virðingu fyrir hv. þingmanni skil ég ekki alveg hvernig hann fær sig til að setja þessa umræðu á þann stað að hún snúist um þann ráðherra sem hér stendur. Ég skil ekki hvernig í ósköpunum hv. þingmaður fær það til að ganga upp. Ég skil ekki hvernig hann fær það út að sá ráðherra sem hér stendur hafi beina aðkomu að þessari deilu. Nú heyri ég að hv. þingmaður hlær í hliðarherbergi, ánægjulegt að hann skemmti sér vel. En ég bið hv. þingmann, og ítreka það sem ég hef áður sagt, þá að segja okkur, ef hann hefur einhverjar hugmyndir um það, hvað hann hefði gert í stöðu þess fagráðherra sem hér stendur. Menn verða þá að svara því.

Það er hægt að sitja hjá og láta verkfallið skella á eða það er hægt að grípa til aðgerða. Það hefur ekkert með persónu einstakra ráðherra að gera. Það hefur ekki einu sinni með persónu einstakra þingmanna að gera, það hefur með það að gera að ákveðin staða er komin upp. Ég sagði hér áðan og ítreka það að þetta eru mér mikil vonbrigði. Ég mun aldrei leggja til breytingar eða ræða um breytingar nema í góðu samráði við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur, enda stöndum við frammi fyrir því — ég ítreka það sem ég hef áður sagt, ég held að málið hljóti að snúast um það — að þurfa aftur og aftur að blanda okkur í deilur á milli einstakra fagstétta og einkafyrirtækis. Það er algjörlega óviðunandi og það er nokkuð sem atvinnurekendur, fyrirtækin á þessum markaði, verða að hugleiða og verða að fara yfir.

Það er mikilvægt að ef við gerum breytingar og ræðum breytingar séu þær gerðar í góðu samráði og samstarfi við þessa aðila. Ég kvíði því ekki, ég held að þeir aðilar, launþegar og atvinnurekendur, séu líka reiðubúnir í það samtal. Ég held að enginn (Forseti hringir.) vilji að Alþingi þurfi að koma að málum eins og nú hefur gerst allt of oft.