143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:19]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær fyrirspurnir sem bárust mér frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur. Ég vona að ég hafi punktað þær rétt niður hjá mér.

Já, ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að fara yfir lögin sem varða ríkissáttasemjara. Það er ástæða til að samræma þær lagaheimildir sem ríkissáttasemjari hefur við þær lagaheimildir sem kollegar hans hafa annars staðar á Norðurlöndum. Við höfum verið að taka saman upplýsingar í ráðuneytinu um þann mismun sem er á íslenskri löggjöf og norrænni löggjöf hvað þetta varðar.

Það virðist sem ríkissáttasemjarar í Noregi og Svíþjóð hafi heimild til að stöðva vinnudeilu áður en hún hefst, í allt að því 14 daga. Í Noregi virðist vera einhver möguleiki á að vísa máli í gerðardóm sem ríkið skipar. Það eru líka ákveðnar tengingar í lögunum við efnahagslegan stöðugleika, ég held hins vegar að fara þurfi mjög vel yfir hvernig það er orðað. Það er alltaf hægt að halda því fram að á grundvelli efnahagslegs stöðugleika eigi ekki að hækka laun og ég er einfaldlega ekki sammála því.

Það er hins vegar alveg ljóst að ástæðan fyrir því að Alþingi Íslendinga kemur hér saman er sú að það er mat okkar sem sitjum í ríkisstjórninni, mat stjórnarflokkanna, að hér séu svo miklir hagsmunir undir, svo gríðarlega miklir hagsmunir fyrir þjóðarbúið að það réttlæti þessa lagasetningu. Ég gæti aldrei samþykkt svona lagasetningu á grundvelli þess að um þetta stórt fyrirtæki væri að ræða, til þess að gæta einhvern veginn að fyrirtækinu. Hér eru einfaldlega það miklir hagsmunir í húfi, um er að ræða stærstu gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsins.

(Forseti hringir.) Ég held því að það sé alveg ljóst að við verðum að setjast niður með aðilum vinnumarkaðarins í framhaldinu og reyna að vinna málið áfram.