143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:34]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er eins og við manninn mælt að það er komið hér upp og gefið í skyn að við séum bara að reyna að vera með einhver almenn leiðindi. Það eina rétta í máli hv. þingmanns sem talaði hér á undan mér, Höskuldar Þórhallssonar, var það að þetta er fordæmalaust og þetta er í fyrsta skipti sem ég man eftir, síðan ég tók sæti á Alþingi, þar sem boðað er til þingfundar með þessum hætti. Það gefur hæstv. forseta að mínu mati ekki heimild til þess að meta það bara sisona einn heima hjá sér í stofu eða með meiri hluta þingsins eða ríkisstjórninni eða innanríkisráðherra að sniðganga þingskapalög, 86. gr. og 10. gr., um að forsætisnefnd setji niður starfsáætlun þings.

Virðulegi forseti. Það eina sem við erum að biðja um er að þingskapalögum sé fylgt í hvívetna vegna þess að sú krafa er gerð á okkur í stjórnarandstöðunni þegar við erum hér að fjalla um mál. (Forseti hringir.) Það að forseti skuli ákveða að sniðganga þessi lög þykir mér honum til mikils vansa og það hefur slæm áhrif á samskipti stjórnarandstöðu við forseta til lengri tíma. Þetta sáir tortryggni, það er bara þannig, um það hvernig menn ætla að túlka næst ákvæði þingskapalaganna. (Gripið fram í.)