144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrir síðustu kosningar kynntum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði endurskoðaða ríkisfjármálaáætlun sem gekk einmitt út á það að veikja ekki tekjustofna heldur halda þeim tekjustofnum sem þá voru komnir á til þess að hægt væri að hefja uppbyggingu. Ég fæ ekki séð í þeirri áætlun sem hæstv. fjármálaráðherra leggur fram að gert sé ráð fyrir neinu svigrúmi til uppbyggingar í velferðarkerfinu. Þess vegna horfum við upp á, með því sem verið er að leggja til með S-merktu lyfin og fleira, aukna greiðsluþátttöku sjúklinga.

Ég spyr líka af því hér hafa verið starfandi starfshópar undir forustu hv. þm. Péturs Blöndals: Er ekki bara búið að gefa sér niðurstöðuna úr þeim hópi úr því þetta er komið fram í fjárlagafrumvarpinu? Það er ekki sjálfgefið að þau lyf sem veitt eru á spítölum séu hluti af þessu greiðsluþátttökukerfi. Mér finnst þetta mjög stórt mál því þetta er grundvallarspurning um velferðarkerfið sem við byggjum. Það er hvað fólk þarf að punga út fyrir það eitt að verða veikt.

Af því að hæstv. fjármálaráðherra nefndi hvernig fólki líður: Ég held að fólki líði ekki vel (Forseti hringir.) sem greinist með krabbamein og verður að borga út kvartmilljón fyrir það. Það er eitthvað sem við ættum öll að geta sameinast um að vilja lækka.