144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir að ef fjárhagslegt áfall verður í lífi hv. þingmanns, t.d. á morgun, muni hann alla vega þurfa mat, það er rökrétt að álykta sem svo og byrja á því. Hann gæti beðið með margt annað. Þess vegna köllum við það nauðsynjavöru.

Ég kem hér upp til að gera athugasemd við orð hv. þingmanns um að Björt framtíð hafi lagt fram tillögur til útgjalda við síðustu fjárlög og ekki hugað að fjármögnun á þeim. Við lögðum fram tillögu um fjárfestingaráætlun svokallaða, að peningur yrði settur í eflingu skapandi greina, byggt á rannsóknum og skýrslum á þeim vettvangi, í Tækniþróunarsjóð og Rannsóknasjóð og í eflingu græns iðnaðar, græna hagkerfisins. Þetta kostaði um 3 milljarða. Upphaflega voru þær tillögur skýrt fjármagnaðar og ekki af skattfé, heldur með arðgreiðslum úr bankakerfinu, af eignarhlut ríkisins í bankakerfinu. Að hluta áttu þær arðgreiðslur að renna í þetta, arðbærar fjárfestingar, og svo í niðurgreiðslu skulda.

Það var dregið í efa að þetta mundi nokkurn tíma skila sér. Þetta skilaði sér síðan á árinu og hefði að fullu fjármagnað umræddar aðgerðir og miklu meira til. Þar að auki greiddum við atkvæði á þann veg við tekjuöflunarfrumvörpin og fjárlögin að ef þingheimur hefði farið að okkar ráðum hefðu fjárlögin líklega endað í, að mér reiknast til, um það bil 23 milljarða plús. Við samþykktum til dæmis að afla bankaskattsins en við vorum að móti því að verja honum svona. Við vildum verja honum í að greiða niður opinberar skuldir, í arðbærar fjárfestingar, í innviðina. Við vorum líka á móti því að hafa ferðaþjónustuna í lægra virðisaukaskattsþrepinu. Það hefði fjármagnað þetta að hluta líka.

Það er ástæða til að minnast á það líka núna (Forseti hringir.) fyrst við erum að tala um virðisaukaskattinn: Af hverju erum við að bögglast með ferðaþjónustuna í lægra skattþrepi?