144. löggjafarþing — 3. fundur,  11. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Fyrst að síðari spurningunni um samstarfið og hvaða áhrif þetta hefur á það.

Ég er hjartanlega sammála því sem aðilar vinnumarkaðarins halda fram, að skattsvik séu meinsemd. Þau skekkja samkeppnisstöðu. Fyrirtæki sem ekki svíkja undan skatti er í verri samkeppnisstöðu miðað við fyrirtæki sem svíkja undan skatti. Þess vegna á að berjast gegn skattsvikum með öllum ráðum, þau eru mjög skaðleg. Ég held að það lagist og meira að segja hverfur sá frumskógur þegar vörugjöldin eru einfölduð og felld niður og þá hverfur möguleiki á því að svindla á þeim geira.

Varðandi fyrri spurninguna um það hvort lækkun á matarskatti muni auka innflutning á erlendum vörum sé ég það ekki. Hann leggst með jafn miklum þunga á bæði innlenda og erlenda matvöru. Það er enginn munur þar á. Ég var að hugsa um þegar hv. þingmaður spurði hvort það gæti verið að einhverjar matvörur séu með vörugjöldum. Það er það reyndar með sykurskatti en ég held að það séu ekki vörur sem Íslendingar framleiða hvort sem er í samkeppni við erlendan innflutning. Ég sé því ekki að þessi hækkun á virðisaukaskatti á matvæli breyti neinu þar sem þetta leggst á bæði innfluttar og erlendar matvörur. Að sjálfsögðu munum við skoða hvort breytingar á vörugjöldum gætu hugsanlega breytt einhverju varðandi þá samkeppnisstöðu en það verður þá væntanlega skoðað í nefndinni.