144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[10:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra staðfesti hér það sem ég var að segja varðandi ferðamálin og uppbyggingu fjölsóttra ferðamannastaða. Ríkisstjórnin skar niður framlag til þeirra í fyrra, veitti svo viðbótarheimild með fyrirvara um samþykki Alþingis núna í vetur þegar hún sá í hvers konar ógöngur var komið. Ráðherrann hefur ekki skilað inn til Alþingis hugmyndum um framkvæmanlegt fyrirkomulag gjaldtöku af ferðamönnum. Það er á hennar ábyrgð. Hún daðrar við alls konar hugmyndir um að lögregluvæða ferðamannastaðina (Gripið fram í.) með því að láta lögregluna fylgjast með ferðamannapössum hér og hvar. Þetta eru allt hugmyndir sem eru illframkvæmanlegar og á meðan situr greinin í algjöru uppnámi og við fáum enga skýra sýn um þennan þátt.

Að því er varðar Samkeppniseftirlitið staðfesti hæstv. ráðherra líka áhyggjur mínar. Það á ekki að veita aukið fé til þess að hafa eftirlit með sannanlega samkeppnishamlandi framgangi í atvinnulífinu, sérstaklega eignarhaldi banka í óskyldum rekstri, heldur á að veita fé til að byggja upp einhvers konar nýja rabbþjónustu Samkeppniseftirlitsins við fyrirtækin í landinu.

Þetta er í samræmi við margendurteknar athugasemdir hæstv. ráðherra meðan hún var óbreyttur þingmaður í garð Samkeppniseftirlitsins um að það gengi allt of harkalega fram gagnvart fyrirtækjum og um að það væri mjög mikilvægt að ekki væri verið að ganga svona hart fram gagnvart fyrirtækjunum og að trufla þau í samkeppnishamlandi framgöngu þeirra á markaði.

Það er þarna sem við sjáum hvernig ríkisstjórnin er að leggja málin upp, það á að auðvelda fákeppnisöflunum að halda áfram þeirri framgöngu sem þeim líður best með, það á ekki að hafa öflugt samkeppniseftirlit. Þetta er verulegt áhyggjuefni fyrir allan þann fjölda lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem hafa um árabil reitt sig á öfluga samkeppnislöggjöf í landinu og eiga tilvist sína undir því að það sé alvörusamkeppniseftirlit með alvörubit (Forseti hringir.) í landinu til þess að hjálpa okkur öllum.