144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:30]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Varðandi Samkeppniseftirlitið tel ég einfaldlega, það má skoða það bara sem sjálfsgagnrýni, og það varð niðurstaða mín að eftir á að hyggja hefði kannski ekki verið stutt nægilega vel við bakið á Samkeppniseftirlitinu sem einni af þeim lykilstofnunum sem fengu stóraukin verkefni í hendur eftir hrunið og sinnir áfram mjög mikilvægu verkefni. Við þurfum að fylgja því eftir hvernig samkeppnisaðstæður þróast hér á markaði á Íslandi eftir því sem fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja vindur fram, bankarnir losa tök sín á atvinnulífinu í gegnum það að þeir selja frá sér fyrirtæki og annað í þeim dúr.

En hvað Framkvæmdasjóð ferðamannastaða varðar vona ég að ráðherra komi í seinna svari sínu betur inn á það. Nú er, það ég best veit, ekkert í hendi um það hvernig þessar svokölluðu náttúrupassahugmyndir eiga að virka enda hafði ég aldrei mikla trú á fyrirbærinu. Að sjálfsögðu er einföld og ódýr gjaldtaka í formi gistináttagjalds eða farseðlaseðla eða virðisaukaskatts á gistingu og þjónustu í ferðaþjónustu skilvirkasta og öflugasta tekjuöflunarleið. En aðalatriðið er að þörfin er upp á milljarð króna plús/mínus næstu nokkur árin ef hér á ekki allt að fara í óefni. Má ég þá líka minna á að Framkvæmdasjóði ferðamannastaða er ætlað víðtækara hlutverk en bara það að grípa inn í á stöðum þar sem allt er að níðast niður vegna ásóknar. Hann á líka að vera þátttakandi í því að byggja upp nýja áfangastaði, búa til nýja segla sem dreifa betur álaginu og gera fleiri svæði landsins þátttakendur í þessu þannig að við getum betur ráðið við vaxandi fjölda en þetta þjappist ekki allt saman á örfáa staði. Ég veit um verkefni, og ráðherrann sjálfsagt líka, sem eru nákvæmlega hugsuð svona en hafa fengið synjun í ár vegna þess að ekki séu til peningar. Þá erum við að tapa dýrmætum tíma í að þróa greinina (Forseti hringir.) á þann hátt sem er almennt samstaða um, að ein af virkustu leiðunum til að mæta vaxandi fjölda er að reyna að dreifa álaginu betur um landið.