144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[11:49]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að forsætisráðherra leitar leiða til þess að forðast að svara fyrir hina almennu stefnumörkun sem hann ber ábyrgð á, um hækkun framlaga til yfirstjórnar á sama tíma og sorfið er að velferðarþjónustu, skorið niður við atvinnuleitendur og auknar álögur lagðar á sjúklinga með fordæmalausri hækkun á lyfjakostnaði.

Virðulegi forseti. Að því er varðar sérstakan saksóknara er vandinn sem ráðherrann stendur frammi fyrir sá að það þarf auðvitað að koma með heildstæða stefnu fyrir embættið, það þarf að vísa veginn fram á við. Þegar framgangan felst fyrst og fremst í því að boða niðurskurð fjárheimilda þá er það ekki til farsælda fallið.

Að síðustu, virðulegi forseti, er kannski ástæða til þess fyrir hæstv. forsætisráðherra að gefa hér færi á því að við getum spurt hann almennt út í áherslur hans í fjárlagafrumvarpinu því að miðað við það sem við sáum í Kastljósi í gær þá er hlutur forsætisráðherrans orðinn þannig að það er full ástæða til að hafa sérstakan fyrirspurnatíma um afstöðu forsætisráðherra til eigin fjárlagafrumvarps. Það var ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo í Kastljósi í gær að hann styddi ekki sitt eigið fjárlagafrumvarp. Það er bara þannig að þá er ekkert hægt að hlífa honum sem forsætisráðherra við því að svara fyrir fjárlagafrumvarpið.

Venjan hefur auðvitað verið sú og þinghefðin er sú að forsætisráðherra styður alltaf fjármálaráðherra sinn og allt sem í fjárlagafrumvarpinu er. Þess vegna er eðlilegt hér að spyrja menn út í það er lýtur að einstökum fagráðuneytum en hæstv. forsætisráðherra er bara búinn að brjóta í blað í stjórnmálasögunni og það er þess vegna fullkomin ástæða til þess að inna hæstv. forsætisráðherra almennt eftir afstöðu hans til fjárlagafrumvarpsins.