144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:43]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er ekki búin að fara mjög ítarlega yfir velferðarráðuneytið sem er risastórt ráðuneyti. Ég vil samt byrja á að lýsa yfir ánægju minni með að það eigi að fara í aðgerðir til að fjölga heimilislæknum, ég held að það sé mjög gott mál.

Varðandi heilsugæsluna á Akureyri langar mig að árétta það sem kom fram í máli hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur áðan, að sveitarstjórnarmenn vildu fyrst og fremst fá meiri pening frá ríkinu í heilsugæsluna og starfsfólkið vildi komast undir ríkið til að fá sambærileg laun og var verið að greiða á öðrum heilsugæslustöðvum. Ég er líka svolítið efins varðandi það að ríkið yfirtaki þetta og man ekki betur en að hæstv. ráðherra hafi lýst yfir ánægju með þetta módel á sínum tíma.

Það er líka rétt að það er óásættanlegt fyrir útsvarsgreiðendur á Akureyri að borga með þjónustunni en þá hlýtur maður að spyrja: Var þetta svona slæmur rekstur, var verið að sóa fé í heilsugæslunni á Akureyri, eða setti ríkið einfaldlega ekki nógu mikla peninga í þennan rekstur? Ég hallast að seinni skýringunni en vil gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra ef þetta var einfaldlega slæmur rekstur þannig að Akureyrarbær neyddist til að setja tugi milljóna inn í hann.

Það er verið að búa til heilbrigðisstofnanir og ég er alveg opin fyrir því að það geti verið viss hagræðing í því að vera með færri stofnanir, ég á eftir að sjá hvernig það verður útfært. Hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands eru þetta tæpir 4 milljarðar og tiltölulega lítill kafli um hana þannig að mig langar að spyrja: Verður settur meiri peningur í heilsugæsluna eftir að hún fer undir Heilbrigðisstofnun Norðurlands? Öll sú þjónusta sem heilbrigðisstofnunin mun veita er ekkert sundurliðuð hér. Mun ríkið tryggja að settir verði meiri peningar í heilsugæsluna? Af hverju mun hún annars batna við það að fara undir Heilbrigðisstofnun Norðurlands?