144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[13:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ef slíkir þjónustusamningar eiga að ganga í heilsugæslunni fyrir svona umfangsmikla þjónustu sem rekin er af heilsugæslustöð á Akureyri tel ég að breyta verði regluverki fjármálahluta verkefnisins frá þeim veruleika sem við er að glíma í dag. Ég nefni bara þetta litla dæmi sem snýr að hinu svokallaða jafnlaunaátaki. Sveitarfélögin voru ekki inni í myndinni varðandi það vegna þess að þau voru með þjónustusamning. Þetta voru Akureyri og Höfn.

Varðandi það hvort aukið fjármagn komi til heilsugæslunnar á Akureyri vegna þessa máls get ég á þessari stundu ekkert sagt til um það. Verkið er þannig að þegar Alþingi hefur lokið meðferð sinni á fjárlagafrumvarpinu er stofnunum okkar uppálagt að skila okkur áætlunum um ráðstöfun á því fé. Það er ekki fyrr en sú áætlun liggur fyrir og þá staðfest sem ég get svarað hv. þingmanni með hvaða hætti starfseminni verður komið fyrir. Á þessari stundu get ég því miður ekki gefið henni fullnægjandi svar við þessari spurningu.