144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[14:25]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Hvað þetta varðar held ég að það sé mjög mikilvægt að velferðarnefnd fari mjög vel yfir þetta og horfi akkúrat til samspilsins á milli ákvörðunar sem annars vegar félags- og húsnæðismálaráðherra tekur og hins vega heilbrigðisráðherra þegar kemur að fjárlagafrumvarpinu.

Við fengum athugasemdir um það við fjárlagagerðina núna fyrir 2014 að aukningar í almannatryggingakerfinu skiluðu sér raunar beint yfir til sjúkratrygginga þannig að ég mundi telja að það væri mjög mikilvægt að velferðarnefnd færi vel yfir þetta.

Ég vil hins vegar líka minna á það sem heilbrigðisráðherra sagði hér fyrr í dag, þegar hann benti á að þetta væri eitt af því sem nefndin ætti að fara vel yfir. Það er ekki bara þannig að öryrkjar eða fólk sem er að kljást við sjúkdóma sé bara að taka eina tegund af lyfjum, lyfjakostnaður getur verið margvíslegur. Það virðist alltaf vera þannig að það sé erfiðast fyrir fólk að komast inn í greiðsluþátttökukerfið, höggið kemur þar. Síðan, eftir að fólk er búið að ná fullum afslætti þá virðist vera mikil ánægja með kerfið. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að menn fari mjög vel yfir það. Ég bendi á að reynslan sýnir alla vega að það virðist ekki skipta máli úr hvaða flokkum fólk kemur — þegar það er á annað borð komið inn í heilbrigðisráðuneytið þá hefur það haldið áfram að byggja upp greiðsluþátttökukerfi.