144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:00]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hvatninguna og mun sannarlega beita mér fyrir því og hef gert. Ég þykist vita að sveitarfélögin séu að karpa við hæstv. ráðherra um fjármagn og eins og ráðherra nefndi sjálf þarf að meta það hvort þetta fjármagn hafi nægt í þau tilraunaverkefni sem fram hafa farið. Mér þykir líklegt að sveitarfélögin haldi því fram að þau þurfi meira fjármagn til þess að halda úti notendastýrðri persónulegri aðstoð fyrir fatlað fólk. Það er vonandi að ráðherra taki vel í það. Það er að minnsta kosti skýrt að það er vilji Alþingis að við lögfestum þetta þjónustuform sem einn valkost fyrir fatlað fólk.

Af því að ég heyrði hæstv. ráðherra og aðra þingmenn tala um velferðartækni, sem er gott og gilt mál, vil ég leggja áherslu á það að við pössum upp á val fatlaðs fólks sem eru auðvitað best til þess fallið sjálft að ákveða hvaða þjónusta hentar því hverju sinni, að við gætum þess að það er fatlað fólk sjálft sem hefur með það að gera og ræður því hvers lags þjónustu það fær eftir því sem hentar.