144. löggjafarþing — 4. fundur,  12. sept. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þá langar mig að spyrja út í hælisleitendur og fanga. Þeir aðilar eiga líka rétt á borgararéttindum. Ég er viss um að hæstv. ráðherra er sammála því. Staðan er samt sem áður þannig að það á að skera töluvert niður í framlögum vegna hælisleitenda og er það skýrt með breytingum á fyrirkomulagi við afgreiðslu umsókna og minni umönnunarkostnaði sem hlýst af hraðari málsmeðferð o.s.frv.

Spurningin er: Má gera ráð fyrir auknu fjármagni í að bæta aðbúnað fyrir hælisleitendur? Eins og flestir vita er algerlega til skammar hvernig búið er að því fólki sem hingað kemur í alls kyns hörmungum í leit að betra lífi.

Fangar hafa kvartað undan því að fá ekki nóg að borða og að þeir sem eru í þannig úrræðum á Litla-Hrauni að þeir elda sjálfir fái engan veginn næga matarpeninga til að geta keypt í matinn í búðinni Rimlakjörum eins og hún er víst kölluð. Þá hafa fangar einnig kvartað undan því að fá ekki næga sálfræðiþjónustu, sérstaklega úti á landi, t.d. í fangelsinu á Akureyri. Nýlega var líka lögð niður staða námsráðgjafa sem veitti föngum ráðgjöf og hafa fangar einnig kvartað undan því að fá ekki nægilega ráðgjöf í betrunarskyni.

Spurningin til ráðherra hvað fanga varðar er: Telur hún tryggt í fjárlögum að Fangelsismálastofnun fái nægilegt fé til að sinna sómasamlega samfélagsþörfum fanga? Ef ráðherra telur svo vera, þarf þá ekki að fara fram könnun á því hvernig Fangelsismálastofnun fer með það fé sem er ætlað til þessara þarfa fanga?